Fleiri fréttir

Óveður á Kjalarnesi og undir Hafnafjalli

Óveður er á Kjalarnesi og undir Hafnafjalli. Vindur gengur hinsvegar mikið niður á þessum slóðum og norðanverðu Snæfellsnesi eftir því sem líður á morguninn.

Rammaáætlun verður að lögum

Alþingi samþykkti Rammaáætlun með 36 atkvæðum í gær. Friðlýsing á verndarsvæðum fer strax af stað, segir umhverfisráðherra. Stjórnarandstaðan telur pólitík hafa tekið yfir vísindalegt ferli og tækifæri til sáttar hafi glutrast niður.

Varð undir veghefli en kláraði vaktina

Pétri Óla Péturssyni tókst með snarræði að bjarga eigin lífi þegar hann varð nærri undir veghefli sem hann ók sjálfur. Hann segist aðeins vera skrámaður og bólginn og gat klárað vaktina í fyrrinótt.

ESB-viðræður verði ekki að bitbeini í kosningabaráttu

Aðildarviðræður Íslands og ESB hafa verið settar í hægagang en viðræður um samningskafla sem þegar eru hafnar halda áfram. Utanríkisráðherra segist reyna að forða því að ESB verði að stóru deilumáli í kosningunum.

Bæjarritarinn rekinn eftir 25 ár á Akranesi

Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari á Akranesi til 25 ára og settur bæjarstjóri um tíma, var rekinn úr starfi fyrir helgi. Bæjarstjórnin segir Jón hafa brugðist trúnaði með því að tvírukka fyrir akstur og fundarsetur. Fordæmalaus vinnubrögð, segir Jón.

Hefðum lagt fram 13 milljarða

Væri Ísland aðildarríki í ESB og evrusamstarfinu myndi hlutur landsins í stöðugleikasjóð Evrópusambandsins (ESM) nema ríflega þrettán milljörðum króna í formi ábyrgða á lánveitingum sem evruríkin ábyrgjast. Um einskiptisframlag væri að ræða, sem yrði skráð í fjárlögum sem eign ríkissjóðs, en ekki kostnaður. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingkonu Framsóknarflokks.

Íbúar mótmæla læknisleysi um helgar

„Þetta er grafalvarlegt mál og í raun spurning um hvort fólk geti búið hér áfram,“ segir Hjördís Vilhjálmsdóttir, einn íbúa í Grundarfirði sem berjast gegn fyrirhuguðum niðurskurði sem þýðir að ekki verður starfandi læknir í bænum um helgar.

Fleiri ábendingar eftir Kastljós

Kynferðisafbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu finnur fyrir því að meira er um ábendingar og hringingar til embættisins vegna kynferðisbrotamála í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um brot Karls Vignis Þorsteinssonar. Þetta segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Segir Umhverfisstofnun sniðganga reglugerð

Umhverfisstofnun virðist ætla að sniðganga reglugerð um bráðamengun hafs og stranda, þar sem segir að stofnunin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í slíkum tilvikum, segir Björn Steinar Pálmason, bæjarstjori á Grundarfirði.

Stal samlokum en snerti ekki tóbakið

Hann hefur að líkindum verið glorsoltinn, þjófurinn, sem braut sér leið inn í söluturn í Kópavogi seint í nótt. Hann virðist aðeins hafa stolið nokkrum samlokum, og ef til vill gosi til að skola þeim niður, áður en hann hvarf aftur út í nóttina, en hreyfði ekki við hlutum eins og tóbaki og símakortum. Hann er ófundinn.

Öryggisvörðurinn fékk reykeitrun

Töluverður eldur kom upp í Glerárskóla á Akureyri síðdegis en það var öryggisvörður frá Securitas sem kallaði eftir aðstoð slökkviliðs þegar hann varð var við eld í byggingunni. Hafði hann reynt að leggja til atlögu við eldinn með handslökkvitæki en varð frá að hverfa vegna reyks. Eldurinn var í kaffistofu starfsmanna og fór mikill reykur álmuna. Tveir reykkafarar voru sendir inn og gekk greiðlega að slökkvaeldinn. Skólinn var reykræstur og lauk því um klukkan hálf átta í kvöld. Öryggisvörðurinn fór á slysadeild vegna gruns um reykeitrun. Talið er að eldurinn hafi kviknað í út frá raftæki.

Par í síbrotagæslu

Karl og kona, sem bæði eru á þrítugsaldri, hafa verið úrskurðuð í síbrotagæslu til 8. febrúar að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa ítrekað komið við sögu hjá lögreglu og voru síðast handtekin um helgina, þá í tengslum við rannsókn á innbroti og þjófnaði í borginni.

Fótbrotnaði í Bláfjöllum

Slys varð í Bláfjöllum á fjórða tímanum í dag þar sem maður á bretti féll og er hann talinn fótbrotinn. Ekki hafa fengist nánari upplýsingar um málið.

Formaður Evrópusamtakanna bjartsýnn þrátt fyrir hægagang

"Auðvitað hefðum við viljað að ríkisstjórnin héldi áfram þetta eins og lá fyrir í stjórnarsáttmálanum, en við skiljum ákvörðunina vel,“ segir Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, um samkomulag ríkisstjórnarinnar að hægja verulega á samningaviðræðum ríkisins um aðild að Evrópusambandinu.

Jón Bjarnason hættur í öllum nefndum

Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra á ekki lengur sæti í utanríkismálanefnd Alþingis. Hann á ekki heldur sæti í efnhags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Forseti ÍSÍ: Lyfjaeftirlitið aldrei jafnvel skipað

Ólafur Rafnsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, segir engan afslátt gefinn hjá lyfjaeftirliti Íþróttasambands Íslands. Birgir Guðjónsson, sérfræðingur í lyflækningum, skýtur föstum skotum að Ólafi í aðsendum pistli í Fréttablaðinu í dag.

Stórtækur íslenskur iPhone svindlari í varðhaldi í Danmörku

Fertugur Íslendingur hefur setið í gæsluvarðhaldi í Danmörku síðan í lok október grunaður um 110 milljóna króna fjársvik. Greint er frá málinu á fréttavef RÚV. Vísir náði tali af starfsmanni efnahagsbrotadeildar lögreglunnar, sem staðfesti þetta en frekari upplýsingar fengust ekki.

Sjálfstæðir Halldórar gagnrýna skáldsögu Hallgríms harðlega

Sjálfstæðismennirnir Halldór Halldórsson, formaður sambands sveitarfélaga, og Halldór Jónsson, verkfræðingur sem hefur sinnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi, gagnrýna bók Hallgríms Helgasonar, Konan við þúsund gráðurnar, harðlega í sitthvorum bloggpistlinum.

Rammaáætlun samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða í dag. Alls greiddi 36 þingmenn atkvæði með tillögunni en 21 var á móti. Þetta er fyrsti starfsdagur þingsins eftir áramót. Umræða um rammaáætlunina fór fram fyrir jól en samkvæmt samkomulagi sem gert var, til þess að þingmenn gætu farið í jólaleyfi, var ákveðið að fresta atkvæðagreiðslu um málið þangað til í dag.

Össur ánægður með ákvörðunina

"Ég er ánægður með ákvörðunina sem við tókum, sem er að hægja á aðildarferlinu,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um samkomulag stjórnarflokkanna að hægja verulega á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Hægt á aðildarviðræðum við ESB

Hægt verður á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta kemur fram í minnisblaði sem samþykkt var í ríkisstjórninni í morgun.

Sýknaður af nauðgun því konan fór úr að ofan

Karlmaður var sýknaður af nauðgun í Héraðsdómi Reykjaness síðasta fimmtudag, meðal annars vegna þess að konan sem hann var ákærður fyrir að brjóta á, klæddi sig úr að ofan.

Ríkisstjórnin boðar tíðindi af ESB-aðildarviðræðum

Boðað hefur verið að fréttatilkynning verði send frá ríkisstjórninni nú fyrir hádegi en ástæðan mun vera gangur mála varðandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ríkisstjórnin hittist á aukafundi í morgun til að ræða fyrirkomulag aðildarviðræðnanna fram að kosningum, eins og fram kemur á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Málið hefur verið rætt á meðal ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna.

Krafði fleiri en einn um greiðslur fyrir sömu fundina

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur gengið frá samningi við Jón Pálma Pálsson um starfslok hans sem bæjarritara. Bæjarritarinn, sem þá var jafnframt settur bæjarstjóri, var leystur tímabundið frá vinnuskyldu sinni á lokuðum fundi bæjarstjórnar þann 16. desember 2012 vegna gruns um að hann hefði brotið starfsskyldur sínar.

Fengu ný gögn í Geirfinnsmálinu

Í byrjun janúar bárust starfshópi innanríkisráðuneytis um Guðmundar- og Geirfinnsmál enn skjöl sem tengjast rannsókn málanna.

Aðgengilegri sjónvarpsdagskrá

Tímaflakk kallast nýjung hjá Símanum, en með því verður hægt að horfa á sjónvarpsefni hvenær sem er innan sólarhrings frá því að efnið var fyrst sýnt. Öll heimili sem tengjast sjónvarpi Símans munu hafa aðgang að flakkinu. Áætlað er að kerfið verði aðgengilegt flestum um miðjan mánuðinn

Góð loðnuveiði alla helgina

Góð loðnuveiði hefur verið alla helgina í góðu sjóveðri austur af Héraðsflóa. Beitir er til dæmis á landleið með 14 hundruð tonn eftir aðeins 14 klukkustunda viðveru á miðunum.

Segir hreinsun Kolgrafarfjarðar ekki á ábyrgð landeigenda

Bæjarstjórn Grundarfjarðar telur útilokað að ábyrgð og kostnaður vegna hreinsunar í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi geti legið hjá landeigendum eða sveitarfélaginu, að því er segir i ályktun bæjarstjórnarinnar.

Alþingi kemur saman í dag

Alþingi kemdur saman til fundar klukkan hálf ellefu, að loknu jólaleyfi þingmanna. Fyrsta mál á dagskrá verður vernd og orkunýting landssvæða, eða svonefnd rammaáætlun.

Hálka veldur mörgum umferðaróhöppum

Fjölmörg umferðaróhöpp urðu suðvestanlands um helgina vegna ísingar og hálku, en engin alvarleg slys urðu. Eignatjón var hinsvegar mikið.

Hægir á viðræðum við ESB

Ríkisstjórnin hittist á aukafundi í dag þar sem rætt verður um fyrirkomulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið (ESB) fram yfir kosningar. Fundað hefur verið um málið á milli ráðherra og í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Fjögur vilja með í 4G-uppboð

Fjögur fyrirtæki munu taka þátt í uppboði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á tíðniheimildum fyrir háhraða farnetsþjónustu, einnig kallað 4G. Þau fyrirtæki sem tilkynntu þátttöku eru 365 miðlar, Síminn, Fjarskipti (Vodafone) og Nova. PFS hefur frest fram til 25. janúar til að fara yfir þátttökubeiðnirnar áður en uppboðið sjálft hefst hinn 11. febrúar.

5.000 manns í Bláfjöllum í gær

Fjölmenni var í Bláfjöllum í gær, þar sem bæði veður og færi voru með besta móti. Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við Fréttablaðið að framan af degi hefði gengið á með éljum en upp úr klukkan tvö hefði brostið á með blíðu. Rúmlega fimm þúsund manns lögðu leið sína á skíðasvæðið. "Færið var æðislegt. Nýfallinn snjór ofan á troðnu, sem hentar öllum, bæði fólki á brettum og skíðum.“

Kristján L. Möller með góðkynja æxli

„Kæru vinir. Fyrir ári síðan greindist ég með góðkynja æxli í skeifugörn sem þurfti að fjarlægja," skrifar Kristján L. Möller, þingmaður og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á Facebook.

Sjá næstu 50 fréttir