Innlent

Krafði fleiri en einn um greiðslur fyrir sömu fundina

Jón Pálmi Pálsson fyrrverandi bæjarritari Akraness.
Jón Pálmi Pálsson fyrrverandi bæjarritari Akraness.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur gengið frá samningi við Jón Pálma Pálsson um starfslok hans sem bæjarritara. Bæjarritarinn, sem þá var jafnframt settur bæjarstjóri, var leystur tímabundið frá vinnuskyldu sinni á lokuðum fundi bæjarstjórnar þann 16. desember 2012 vegna gruns um að hann hefði brotið starfsskyldur sínar.

Kveikjan að því að málið var upphaflega tekið til skoðunar á vettvangi Akraneskaupstaðar var ábending frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi um að bæjarritarinn, fulltrúi Akraneskaupstaðar í stjórnum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Menningarráðs Vesturlands, krefði fleiri en einn aðila um akstur og þóknun fyrir setu á sömu fundum.

Lögmenn og endurskoðendur Akraneskaupstaðar könnuðu málið í framhaldinu að ósk formanns bæjarráðs. Í áliti þeirra kemur fram að bæjarritarinn hafi ekki farið að reglum sem gilda hjá Akraneskaupstað varðandi greiðslur fyrir bifreiðaafnot. Hann hafi krafið í nokkrum tilvikum um greiðslu og fengið greitt í tvígang fyrir sama aksturinn á árunum 2011 og 2012. Málin varða Akraneskaupstað annars vegar og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands eða Menningarráð Vesturlands hins vegar.

Í áliti lögmanna og endurskoðenda Akraneskaupstaðar kemur einnig fram að bæjarritarinn hafi í nokkrum tilvikum krafið um og fengið greitt fyrir sömu fundina hjá fleiri en einum aðila en setið fundina í nafni Akraneskaupstaðar. Þetta samrýmist ekki reglum sem gilda um fundargreiðslur hjá Akraneskaupstað.

Í ljósi þess trúnaðarbrests sem orðið hefur telur bæjarstjórn Akraneskaupstaðar starfslok óumflýjanleg.

Bæjarritarinn hefur að eigin frumkvæði endurgreitt bæjarsjóði tæplega 230.000 krónur vegna ofgreidds aksturskostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×