Innlent

Hægt á aðildarviðræðum við ESB

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Hægt verður á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta kemur fram í minnisblaði sem samþykkt var í ríkisstjórninni í morgun. Þetta er gert í ljósi þess að komandi mánuðir munu markast af undirbúningi undir alþingiskosningar sem fram fara í vor.

Af þeim 33 málaflokkum sem samið er um hefur Ísland afhent 29 samningsafstöður, viðræður eru hafnar um 27 og lokið um 11. Í minnisblaðinu kemur fram að ekki verður unnið frekar við mótun samningsafstöðu Íslands í þeim fjórum köflum sem enn eru ófrágengnir. Þetta eru sjávarútvegskaflinn (sem er kafli 13), kaflar 3 og 4 um þjónustuviðskipti og staðfesturétt sem hafa tengingu yfir í sjávarútvegskaflana og landbúnaðarkaflinn (sem er kafli 11).

Í minnisblaðinu kemur fram að samninganefnd Íslands og sérfræðingar muni halda áfram uppi samskiptum við ESB um þá sextán kafla sem hafa verið opnaðir og ekki hefur verið lokið við, án þess þó að kallað verði eftir frekari ákvörðunum framkvæmdar- eða löggjafarvalds.

Utanríkisráðherra mun upplýsa framkvæmdastjórn ESB og formennskuríkið Írland með viðeigandi hætti um þennan umbúnað viðræðnanna.

Hér má sjá yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×