Innlent

Hægir á viðræðum við ESB

Oddvitar ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Oddvitar ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Ríkisstjórnin hittist á aukafundi í dag þar sem rætt verður um fyrirkomulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið (ESB) fram yfir kosningar. Fundað hefur verið um málið á milli ráðherra og í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður lagt til að hægja á viðræðunum fram yfir kosningar. Aðeins verði viðhaldið lágmarksstarfsemi; gagnaöflun og skiptum á upplýsingum. Ákvörðun um áframhald viðræðnanna og fyrirkomulag þeirra verði verkefni nýrrar ríkisstjórnar.

Áramótaávarp Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna, á vef flokksins hefur vakið titring hjá Samfylkingunni.

„Óumflýjanlegt er að endurmeta nú stöðu viðræðna við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna og búa um það mál með ábyrgum hætti," sagði Steingrímur þar og bætti því við að vilji þjóðarinnar yrði að varða veginn, þar sem ekki tækist að leggja samning í þjóðaratkvæði á kjörtímabilinu. „Að ákveða hvernig verður búið um málið til næstu mánuða og missera og hvenær og hvernig verður leitað leiðsagnar frá þjóðinni í þeim efnum er verkefni næstu vikna."

Þessi orð urðu tilefni fundarhalda Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra með ýmsum forystumönnum flokkanna; formanni og varaformanni Vinstri grænna sem og innanríkisráðherra og varaformanni Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra. Þá hafa þingflokkar stjórnaflokkanna fundað um málið.

Heimildir Fréttablaðsins herma að Samfylkingin hafi óttast að með þessu væri Steingrímur að boða stuðning við það að hlé yrði gert á aðildarviðræðum og það sett í þjóðaratkvæði hvort þeim yrði haldið áfram.

Samfylkingin kom þeim skilaboðum á framfæri að það jafngilti stjórnarslitum. Nú á að reyna að koma ESB-málum fyrir þannig að þau þvælist ekki fyrir samstarfi flokkanna fram að kosningum. Reikna má með því að ESB-málin verði fyrirferðarmikil á landsfundum beggja flokkanna, sem verða í febrúar.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×