Innlent

Bæjarritarinn rekinn eftir 25 ár á Akranesi

Ábending frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi leiddi til úttektar á greiðslum til bæjarritarans á Akranesi tvö og hálft ár aftur í tímann.Fréttablaðið/GVA
Ábending frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi leiddi til úttektar á greiðslum til bæjarritarans á Akranesi tvö og hálft ár aftur í tímann.Fréttablaðið/GVA
„Þau vinnubrögð sem bæjarstjórn hefur viðhaft í þessu máli eru fordæmalaus,“ segir Jón Pálmi Pálsson, sem er hættur sem bæjarritari á Akranesi með starfslokasamkomulagi við bæjarstjórnina.

Jón hefur verið bæjarritari á Akranesi í 25 ár. Hann hafði um nokkurra vikna skeið verið settur bæjarstjóri þegar honum var veitt tímabundin lausn frá starfsskyldum 16. desember síðastliðinn.

„Kveikjan að því að málið var upphaflega tekið til skoðunar á vettvangi Akraneskaupstaðar var ábending frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi um að bæjarritarinn, fulltrúi Akraneskaupstaðar í stjórnum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Menningarráðs Vesturlands, krefði fleiri en einn aðila um akstur og þóknun fyrir setu á sömu fundum,“ segir í fréttatilkynningu frá Sveini Kristinssyni, forseta bæjarstjórnar, fyrir hönd bæjarins.

Fram kemur að Jón hafi í nokkrum tilvikum krafið um greiðslu og fengið greitt í tvígang fyrir sama aksturinn á árunum 2011 og 2012.

„Í áliti lögmanna og endurskoðenda Akraneskaupstaðar kemur einnig fram að bæjarritarinn hafi í nokkrum tilvikum krafið um og fengið greitt fyrir sömu fundina hjá fleiri en einum aðila en setið fundina í nafni Akraneskaupstaðar,“ segir í tilkynningu bæjarins. „Í ljósi þess trúnaðarbrests sem orðið hefur telur bæjarstjórn Akraneskaupstaðar starfslok óumflýjanleg.“

Jón segir vinnubrögð bæjarstjórnarinnar í andstöðu við almennar reglur stjórnsýslulaga. „Ofgreiðsla þessi er vegna mistaka minna við skráningu aksturs og hef ég endurgreitt bæjarfélaginu þessa fjármuni að fullu. Auðvelt hefði verið að leiðrétta þessi mistök án þess að grípa til fyrrgreindra aðgerða sem hafa skaðað mig og sveitarfélagið,“ segir Jón í yfirlýsingu. Hann endurgreiddi 230 þúsund krónur vegna ofgreidds aksturskostnaðar.

Þá segir Jón að greiðslur þóknana til hans vegna setu í tveimur nefndum sem sveitarfélagið sé aðili að hafi verið í samræmi við reglur hvorrar nefndar um sig. Hann hafi gert ráð fyrir að snúa aftur til starfa sem bæjarritari.

„Mistök mín voru óveruleg eins og fjárhæð endurgreiðslunnar ber með sér og enginn vafi uppi um önnur störf mín sem bæjarritari, sem spanna aldarfjórðung. Bæjarstjórn hafnaði því að ég kæmi aftur til starfa, enda reiddi hún hátt til höggs áður en upplýsingar lágu fyrir,“ segir Jón, sem kveðst því hafa samþykkt „ágætt tilboð“ um starfslokasamning. „Mér finnst afskaplega miður að ljúka 25 ára starfi mínu hjá bæjarfélaginu með þessum hætti.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×