Innlent

Rammaáætlun verður að lögum

Þrjár fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá voru færðar úr nýtingar- í biðflokk. Hvammsvirkjun er þar á meðal, en hér má sjá hvar hún var fyrirhuguð.
Þrjár fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá voru færðar úr nýtingar- í biðflokk. Hvammsvirkjun er þar á meðal, en hér má sjá hvar hún var fyrirhuguð. fréttablaðið/vilhelm
Eftir langt og strangt ferli, viðræður og vangaveltur um hver yrðu afdrif Rammaáætlunar um vernd og nýtingu orkusvæða samþykkti öruggur meirihluti þingmanna áætlunina í gær. 36 þingmenn sögðu já en 21 sagði nei. Rammaáætlun verður því að lögum.

Rammaáætlun átti að setja niður í eitt skipti fyrir öll deilur um hvar ætti að virkja og hvar að vernda. Eins og sést á ummælum þingmanna hér til hliðar er sú sátt órafjarri. Ólík sýn á málið er heldur ekki bundin við þingsal.

Náttúruverndarfélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að samþykkt áætlunarinnar feli í sér „mikilvægan sigur í baráttunni fyrir verndun náttúru Íslands“.

Stjórn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í upphafi ársins þar sem tillagan var sögð óásættanleg. Fjöldi virkjanakosta hefði verið færður í bið- eða verndarflokk, jafnvel þeir hagkvæmustu og best rannsökuðu.

„Ljóst er að engin sátt getur orðið um þessa niðurstöðu, sem varpar fyrir róða áralangri faglegri vinnu verkefnisstjórnar.“

Það er því ekki ólíklegt að Mörður Árnason, talsmaður meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar í málinu, hitti naglann á höfuðið þegar hann segir að áfram muni menn deila um einstaka virkjunarkosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×