Fleiri fréttir

Guðfríður Lilja sagði nei takk

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG hafnaði boði Steingríms J. Sigfússonar um að taka við ráðherraembætti af Ögmundi Jónassyni sem sagði af sér í gær. Álfheiður Ingadóttir mun taka við embættinu. Eftir þingflokksfund VG sem stóð fram á nótt sagði Steingrímur J. Sigfússon að margir fleiri hafi komið til greina ekki síst Guðfríður Lilja, hefði hún viljað taka embættið að sér.

Fyrirvarar á stuðningi við Steingrím

Atli Gíslason, þingmaður VG, segir að þrátt fyrir að Steingrímur J. Sigfússon hafi fengið fullt umboð þingflokksins til þess að halda samningaviðræðum varðandi Icesave áfram, setji hann og fleiri þingmenn flokksins áfram fyrirvara við málið. Atli segir að afstaða sín og nokkurra annarra þingmanna VG ráðist að endingu eftir því hver niðurstaða málsins verði. Þetta kom fram í þættinum Bylgjan í bítið í morgun.

Seinasta skemmtiferðaskip sumarsins kemur í dag

Í dag fimmtudag, kemur seinasta skemmtiferðaskip sumarsins til Reykjavíkur en það er Emerald Princess. Skipið er á leiðinni til USA og kemur hingað frá Belfast á Norður Írlandi.

60 ár frá valdatöku kommúnista í Kína

Kínverski kommúnistaflokkurinn fagnar því nú að 60 ár eru í dag liðin frá því þegar flokkurinn komst til valda og Alþýðulýðveldið Kína varð til. Það var 1. október 1949 sem Mao Zedong lýsti því yfir að Kína væri alþýðulýðveldi í takt við kommúnismann.

Jakobína Björnsdóttir býður sig fram til formanns BSRB

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, hefur tilkynnt að hún bjóði sig fram til formanns BSRB á ársþingi bandalagsins, sem haldið verður í Reykjavík dagana 21.-23. október næstkomandi. „Sem kunnugt er hefur Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra og núverandi formaður BSRB, tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs en hann hefur verið formaður BSRB í 21 ár," segir í tilkynningu frá Jakobínu.

Bannað að selja ömmu á eBay

Tíu ára gamalli breskri stúlku hefur verið bannað að selja ömmu sína á uppboðsvefnum eBay. Málið er ekki flóknara en það að Zoe Pemberton, búsett í Clacton í Essex, skellti ömmu gömlu á uppboð á vefnum góðkunna.

Mjólk frá Mugabe illa séð

Suðurafrísku mannréttindasamtökin AfriForum hafa gefið svissneska matvælafyrirtækinu Nestlé eina viku til að gefa út yfirlýsingu um að það muni hætta að kaupa mjólk af Gushungo-mjólkurbúinu í Zimbabwe.

Hópslagsmál í dómsal

Hópslagsmál brutust út í dómsal 16 í bæjarrétti Kaupmannahafnar í gær þegar á þriðja tug ungmenna mættu þangað til að fylgjast með málflutningi.

Biður Schwarzenegger að loka vændissíðu

Harriet Harman, jafnréttismálaráðherra Bretlands, hefur farið fram á það við Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóra Kaliforníu, að hann láti loka vefsíðu þar sem fólki, og þá væntanlega aðallega karlmönnum, gefst kostur á að gefa vændiskonum einkunn eftir frammistöðu, þar á meðal nokkrum sem starfa á götum Lundúna en vefsíðan er hýst af fyrirtæki í Kaliforníu.

Óttast um þúsundir á Vestur-Súmötru

Annar öflugur Jarðskjálfti skók vesturhluta Indónesíu í nótt. Óttast er að þúsund manns hafi látist í skjálftunum seinasta sólarhringinn. Seinni skjálftinn sem reið yfir Vestur Súmötru mældist 6,8 á Richter kvarðanum en sá fyrri mældist 7,6 stig. Báðir skjálftarnir áttu upptök sín í talsverðri nálægð við höfuðborg eyjarinnar, Padang en þar búa um 900 þúsund manns.

Steingrímur fær Icesave umboð - Álfheiður ráðherra

Á þingflokksfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem stóð fram eftir nóttu fékk Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins fullt umboð frá þingmönnum sínum til þess að ganga frá Icesave-málinu í samræmi við hugmyndir ríkisstjórnarinnar.

Prinsippafsagnir mættu vera tíðari

„Það er að mjög óvenjulegt á Íslandi, og kannski allt of óvenjulegt, að ráðherra segi af sér vegna skoðanaágreinings við ríkisstjórnina,“ segir stjórnmálafræðingurinn Gunnar Helgi Kristinsson um afsögn Ögmundar Jónassonar úr ríkisstjórninni. Fá dæmi um slíkt séu frá lýðveldisstofnun.

140 ker bíða jarðsetningar

Nýr duftgarður verður vígður í Öskjuhlíð á morgun. Alls bíða duftker um 140 manna þess að vera grafin í garðinum sem ber nafnið Sólland. Þar er um að ræða fólk sem aðstandendur vilja fremur greftra í Fossvogi en öðrum duftgörðum.

Svínaflensan heldur í rénun

Svo virðist sem svínaflensan svonefnda hafi náð toppi að undanförnu og sé nú heldur í rénun. Þetta segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.

Mál forstjórans hjá ráðuneyti

Mál forstjóra Heilbrigðisstofnunar Blönduóss er nú til meðferðar hjá lögfræðingadeild heilbrigðisráðuneytisins, að sögn Helga Más Arthurssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Ríkisstjórn í ólgusjó

Eindregin krafa oddvita ríkisstjórnarflokkanna um að væntanleg lausn á Icesave-málinu verði gerð í nafni allrar ríkisstjórnarinnar varð til þess að Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra í gær.

Samræmt mat tefur um tvö ár

„Vissulega veldur þetta óvissu en við verðum að vinna úr þessari stöðu,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, um þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfis­ráðherra að ógilda fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar um línulagnir vegna álversins í Helguvík og orkuframkvæmda á Suðurnesjum.

Nær öllum sagt upp á Baldri

Tólf af sextán starfsmönnum Sæferða var í gær sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. „Okkur hefur verið sagt að ferðum verði fækkað um áramótin. Þótt við vitum reyndar ekki enn hversu mikið þá getum við ekki haldið óbreyttum starfsmannafjölda. Það ræðst af því hversu mikið af ferðunum verður skorið niður hversu margir verða endurráðnir,“ segir Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, sem gera út Breiðafjarðarferjuna Baldur.

Þingsetning í skugga pólitísks glundroða

Ríkisstjórnin gengur löskuð til þingsetningar í dag. Lyktir Icesave-málsins eru enn óljósar. Togstreita er milli stjórnarflokkanna vegna ákvarðana í ríkisstjórn.

Telur uppsögnina ólögmæta

„Við teljum þetta ólögmæta uppsögn, og það verður látið á þetta reyna,“ segir Regína Höskuldsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Landakotsskóla. Henni var sagt upp 16. ágúst síðastliðinn eftir ágreining við stjórn skólans. Henni var tjáð að uppsögnin væri í sparnaðarskyni. Regína segist nú vera að skoða næstu skref með lögfræðingi Kennarasambandsins, en segist þegar búin að ákveða að fara í hart við skólann vegna uppsagnarinnar. Ekki náðist í formann stjórnar Landakotsskóla í gær.- bj

Stútar þurfa að opna áfengislás

Þeir Danir sem hafa verið dæmdir fyrir ölvunarakstur skulu sæta því að ölvunarlás verði settur í bíl þeirra. Lásinn metur hvort vínandi sé í blóði bílstjórans, áður en hann hleypir bílnum í gagn.

Tekjur lífeyrissjóða lækka

Augljóst er að ráðstöfunartekjur lífeyrissjóðanna koma til með að lækka vegna fyrirhugaðra breytinga félagsmálaráðherra á lögum um greiðslujöfnun.

Brown vill að hægt verði að reka þingmenn

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands og formaður Verkamannaflokksins, vill að kjósendur geti rekið þingmenn sem verða uppvísir að því að brjóta lög. Þetta kom fram í ræðu hans á árlegum landsfundi Verkamannaflokksins í Brighton á þriðjudag.

Uppruna e.coli-sýkingar leitað

Uppruna e.coli-bakteríunnar sem fimm manns sýktust af nýverið er nú leitað, að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis. Grunur lék á að sjötti maðurinn hefði sýkst en niðurstaða rannsókna í gær sýndi að svo væri ekki.

Hið opinbera lækki launakostnað sinn

Félag íslenskra stórkaupmanna vill að ríkið veiti skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa og að launþegar fái beint ýmsar greiðslur sem renni í sameiginlega sjóði þeirra. Þetta er meðal tillagna félagsins til að smyrja hjól efnahagslífsins.

Mynda þarf starfhæfa stjórn

„Ég er orðinn áhyggjufullur yfir þessari stöðu sem blasir við okkur,“ segir Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins. „Ríkisstjórnin virðist vægast sagt ekki standa traustum fótum, og hefur nú ekki gert það lengi að mati okkar margra.“ Trúlega hafi aldrei verið eins mikilvægt að búa við trausta ríkisstjórn og því þurfi stjórnarflokkarnir að fara að ræða almennilega saman og leysa sín vandamál.

Sérstakir dómstólar fjalli um hrunmálin

Héraðsdómur vísaði í gær frá kröfu 25 erlendra banka vegna yfirtöku FME á SPRON. Rýrir trú erlendra aðila á íslensku dómskerfi segir lögmaður stefnenda. Dómari taldi stefnendur ekki hafa afmarkað tjón og átaldi málaskjöl á ensku.

Air Atlanta bætir flugvélum við flotann

Flugfélagið Air Atlanta mun bæta þremur Boeing 747-400-þotum í flota sinn á næstu tveimur mánuðum. Félagið hefur verið með eina til þrjár slíkar þotur í rekstri en þær verða nú fimm. Ráðning flugmanna stendur yfir og koma nokkrir þeirra úr röðum fyrrverandi starfsmanna Icelandair.

Mótmælt við þingsetningu

Viðbúið er að nokkur fjöldi fólks verði við þingsetninguna á Austurvelli í dag og láti í ljós óánægju með ástandið í stjórnmálunum. Á netinu hafa síðustu daga gengið áskoranir og hvatningar um að fólk mæti á Austurvöll vopnað skiltum, búsáhöldum og jafnvel skyri.

Fengu að skoða ísgerðina

Göngu þeirra Jóns Björnssonar og Hjálmars Forna Steingrímssonar frá Ísafirði til höfuð­borgarinnar lauk á Kaffi Reykjavík seinni partinn á sunnudag. Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að þeir félagar hefðu ákveðið að ganga leiðina, sem er 450 kílómetrar, til að fá sér ís í Reykjavík.

Lán lengjast mest um þrjú ár

Greiðslubyrði af verðtryggðum lánum færist aftur til 1. janúar 2008 og til 1. maí 2008 af gengistryggðum lánum. Lánstíminn verður lengdur um þrjú ár og eftirstöðvar síðan afskrifaðar á kostnað lánastofnana.

Hrifnastir af morgunmat og pottréttum

Landspítalinn segir könnun sýna að sjúklingum á legudeildum spítalans þyki maturinn þar góður og hollur og að samsetning hans hæfi veikindum þeirra. Einnig að útlit máltíða og lykt sé góð.

Börnin borða meiri súrmjólk

Skólabörn á Íslandi drekka fjórum prósentum meiri mjólk en í fyrra eftir að byrjað var að bjóða ískalda mjólk úr sérstökum mjólkurkælum Mjólkursamsölunnar í skólum landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi kúabænda.

Verður áfram í gæsluvarðhaldi

Gæsluvarðhald var fyrr í vikunni framlengt yfir karlmanni um þrítugt sem játað hefur að hafa orðið manni að bana í Dalshrauni í Hafnarfirði um miðjan ágúst. Lögregla hefur lokið rannsókn málsins og hefur það verið sent til ákæruvaldsins.

Vitni eru til að undirskriftinni

Kaupsamningur milli Björgólfsfeðga og félags Ingimars H. Ingimarssonar, sem Ingimar segir falsaða, voru undir­ritaðir í viðurvist rússneskra meðeigenda. Opinber sérfræðideild í Pétursborg hefur einnig staðfest að undirritunin tilheyri Ingimari.

Rauði kross Íslands safnar

Rauði kross Íslands hefur opnað söfnunarsímann 904 1500 fyrir þá sem vilja styðja hjálparstarf meðal fórnarlamba flóðanna á Kyrrahafseyjum. Þá dragast 1500 kr. frá næsta símreikningi.

Fyrsti trúðurinn farinn út í geiminn

Kanadískur sirkus­eigandi slóst í hópinn með bandarískum og rússneskum geimfara sem skotið var út í geiminn frá gresjunum í Kasakstan í gær. Guy Laliberte er sagður fyrsti sirkustrúðurinn sem kemst út í geiminn. Hann stofnaði ásamt félögum sínum hinn víðfræga Sólarsirkus í Kanada fyrir aldarfjórðungi.

Refsiaðgerðir undirbúnar

Fulltrúar Bandaríkjanna og fleiri Vesturlanda halda til Írans í dag að ræða ágreining við stjórnvöld þar um kjarnorku. Ekki er búist við miklum árangri af viðræðunum, enda eru þessi sömu ríki í óða önn að undirbúa frekari refsiaðgerðir á hendur Írönum.

Smáríki gegn GSM-sendum

Þingið í Liechtenstein samþykkti í sumar að draga mjög úr leyfilegri hámarksgeislun frá GSM-sendum og eru mörkin þar orðin mun lægri en í nágrannalöndunum.

Hamfarir í Asíuríkjum kosta hundruð manna lífið

Á annað hundrað manns fórst þegar flóðbylgja reið yfir Samóaeyjar í kjölfar öflugs jarðskjálfta á þriðjudag. Annar stór jarðskjálfti varð við Indónesíu í gær og kostaði tugi eða jafnvel hundruð manna þar lífið.

Of alvarlegt til að þegja um

Armando Spataro, saksóknari á Ítalíu, segir mannrán sem bandarískir leyniþjónustumenn frömdu í Mílanó árið 2003, vera of alvarlegan glæp til að hægt sé að þegja um, jafnvel þótt ríkisleyndarmál séu í húfi.

Sjá næstu 50 fréttir