Innlent

Samræmt mat tefur um tvö ár

„Vissulega veldur þetta óvissu en við verðum að vinna úr þessari stöðu," segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, um þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfis­ráðherra að ógilda fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar um línulagnir vegna álversins í Helguvík og orkuframkvæmda á Suðurnesjum.

„Frekari töf er óásættanleg. Það þarf að koma í veg fyrir að hún verði," sagði Björgvin, sem boðaði þingmenn kjördæmisins til fundar í gær með embættismönnum frá Skipulagsstofnun. Umhverfisráðuneytinu var boðið að senda fulltrúa á þann fund, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins, en þáði ekki boðið.

Úrskurður Svandísar þýðir að Skipulagsstofnun þarf á ný að fjalla um málið og ákveða hvort krafist verður sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra línulagna og virkjanaframkvæmda á Reykjanesi.

Björgvin segir að þetta þurfi ekki að tefja málið um meira en tvo mánuði; Skipulagsstofnun hefur einn mánuð til þess að skila af sér nýju áliti og að því loknu þarf ráðherra að skila niðurstöðu innan mánaðar. Ákveði Skipulagsstofnun eða ráðherra hins vegar að sameiginlegt umhverfismat eigi að fara fram getur það tafið málið um 2-3 ár, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins, en Björgvin segir ljóst að samræmt umhverfismat gæti tafið framkvæmdir „um einhver misseri".

„Það væri þungbært og ekki í anda stöðugleikasáttmálans ef svo yrði," sagði Björgvin. „Ég er sannfærður um að ekki kemur til þess."- pg / sjá síðu 22






Fleiri fréttir

Sjá meira


×