Innlent

Air Atlanta bætir flugvélum við flotann

Air Atlanta bætir við þrem þotum af þessari gerð og ræður flugmenn vegna aukinna umsvifa.
Air Atlanta bætir við þrem þotum af þessari gerð og ræður flugmenn vegna aukinna umsvifa.

 Flugfélagið Air Atlanta mun bæta þremur Boeing 747-400-þotum í flota sinn á næstu tveimur mánuðum. Félagið hefur verið með eina til þrjár slíkar þotur í rekstri en þær verða nú fimm. Ráðning flugmanna stendur yfir og koma nokkrir þeirra úr röðum fyrrverandi starfsmanna Icelandair.

Air Atlanta er nú með um tuttugu þotur í rekstri, flestar af gerðinni Boeing 747 en nokkrar af gerðinni Airbus A300-600. Félagið sinnir verkefnum víða um heim, þar á meðal í Saudi-Arabíu, Malasíu og Sameinuðu furstadæmunum.

Að taka þrjár Boeing 747-400-þotur í notkun er stórt skref og kemur Air Atlanta aftur í fremstu röð flugfélaga á leiguflugsmarkaði á heimsvísu, segir í nýjasta fréttablaði Félags atvinnuflugmanna.

Þar segir jafnframt að þjálfun flugmanna á vélarnar sé lokið. Félagið er að ráða mannskap á aðrar vélar og eru meðal annars níu manns frá Icelandair að hefja störf hjá Air Atlanta um þessar mundir sem verktakar.

Forsvarsmenn fyrirtækisins eru bjartsýnir á framhaldið nú þegar vélarnar eru að fara í verkefni og sá kostnaður sem fylgir innleiðingu þeirra er að mestu að baki. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×