Innlent

Prinsippafsagnir mættu vera tíðari

Gunnar Helgi Kristinsson
Gunnar Helgi Kristinsson

„Það er að mjög óvenjulegt á Íslandi, og kannski allt of óvenjulegt, að ráðherra segi af sér vegna skoðanaágreinings við ríkisstjórnina," segir stjórnmálafræðingurinn Gunnar Helgi Kristinsson um afsögn Ögmundar Jónassonar úr ríkisstjórninni. Fá dæmi um slíkt séu frá lýðveldisstofnun.

„Það hefur hingað til verið eitt af sérkennum íslenskra stjórnvalda hvað svona prinsippafsagnir hafa verið sjaldgæfar. Það er kannski bara gleðiefni að við fáum að sjá eitthvað af því taginu," segir hann.

Gunnar Helgi segir Ögmund hins vegar hafa einkennilega afstöðu til þingræðisins. „Það eru tveir stjórnarflokkar í þessum meirihluta en ekki þrír. Það er svona eins og Ögmundur haldi að þeir geti bæði verið tveir og þrír án þess að þriðji flokkurinn hafi nokkurn tímann komið að gerð stjórnarsáttmála eða sé almennt viðurkenndur sem sérstakur flokkur. Ég held að það sé alveg klárt í öllu þingræðisfyrirkomulagi að svoleiðis ganga hlutirnir ekki fyrir sig, heldur þannig að það eru tilteknir flokkar sem semja um tiltekna stjórn og þeir skuldbinda sig og alla sína flokksmenn til að styðja stefnu stjórnarinnar. Og þá er ekki hægt að hafa það þannig að það sé síðan bara valkvætt fyrir einhvern hluta flokksins hvort hann vill vera með eða ekki þegar eitthvert leiðindamál kemur upp."

Þetta sé gert til að ríkið á hverjum tíma búi við sæmilega styrka stjórn. „Mér finnst vera einhver hola í þessum málflutningi hjá Ögmundi," segir Gunnar. - sh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×