Innlent

Mál forstjórans hjá ráðuneyti

Mál forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar á staðnum er hjá heilbrigðisráðuneytinu.
Mál forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar á staðnum er hjá heilbrigðisráðuneytinu.

 Mál forstjóra Heilbrigðisstofnunar Blönduóss er nú til meðferðar hjá lögfræðingadeild heilbrigðisráðuneytisins, að sögn Helga Más Arthurssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

„Meðan svo er tjáir ráðuneytið sig ekki um málið,“ bætir hann við.

Upphaf málsins var það að Persónuvernd barst kvörtun um óheftan aðgang forstjórans að sjúkraskrám heilbrigðisstofnunarinnar. Persónuvernd vísaði málinu til landlæknisembættisins, þar sem fram fór rannsókn sem leiddi í ljós að forstjórinn hefði farið inn á sjúkraskrár í einhverjum tilvikum, að því er Matthías Halldórsson landlæknir staðfesti við Fréttablaðið. Forstjórinn hefur aðgang að sjúkraskrám heilbrigðisstofnunarinnar af því að hann annast tölvumál hennar og hefur meðal annars stofnað aðgang fyrir nýja starfsmenn og sett inn lykilorð þeirra. Landlæknisembættið hefur nú sent niðurstöðu sína í málinu til ráðuneytisins, þar sem forstjórar heilbrigðisstofnana heyra undir það.

Brot gegn lögum um sjúkraskrár varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×