Erlent

Fyrsti trúðurinn farinn út í geiminn

Stofnandi Sólarsirkussins ætlar að dveljast í alþjóðlegu geimstöðinni næstu vikurnar.fréttablaðið/AP
Stofnandi Sólarsirkussins ætlar að dveljast í alþjóðlegu geimstöðinni næstu vikurnar.fréttablaðið/AP

 Kanadískur sirkus­eigandi slóst í hópinn með bandarískum og rússneskum geimfara sem skotið var út í geiminn frá gresjunum í Kasakstan í gær.

Guy Laliberte er sagður fyrsti sirkustrúðurinn sem kemst út í geiminn. Hann stofnaði ásamt félögum sínum hinn víðfræga Sólarsirkus í Kanada fyrir aldarfjórðungi.

Hann þurfti að borga fyrir farið, heilar 35 milljónir Bandaríkjadala, en það samsvarar nærri 4,4 milljörðum króna. Hann hefur efnast vel á rekstri Sólarsirkussins, sem heldur reglulega glæsisýningar víðs vegar um heim. Hann er talinn eiga 2,5 milljarða dala og er skráður eigandi að 95 prósentum í sirkusnum.

Með honum í geimflauginni, sem skotið var upp frá Kasakstan í gær, eru geimfararnir Jeffrey Williams og Maxim Surajev, en þeir eru bara í vinnunni sinni og fá borguð laun fyrir.

Lalibert hefur ítrekað að hann ætli að sæta færis og kitla ferðafélaga sína meðan þeir sofa. Hann ætlar að snúa aftur til jarðar eftir tólf daga dvöl í geimnum, en þeir Williams og Surajev búast við að dveljast ytra í 169 daga. Williams er að fara út í geiminn í þriðja sinn.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×