Innlent

Jakobína Björnsdóttir býður sig fram til formanns BSRB

Jakobína Björnsdóttir.
Jakobína Björnsdóttir.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, hefur tilkynnt að hún bjóði sig fram til formanns BSRB á ársþingi bandalagsins, sem haldið verður í Reykjavík dagana 21.-23. október næstkomandi. „Sem kunnugt er hefur Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra og núverandi formaður BSRB, tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs en hann hefur verið formaður BSRB í 21 ár," segir í tilkynningu frá Jakobínu.

Jakobína segir að verði hún kjörin formaður BSRB hyggist hún búa áfram á Akureyri og ljúka kjörtímabili sínu sem formaður Kjalar en því lýkur árið 2011. Hins vegar muni hún þá ráða starfsmann í sinn stað á skrifstofu Kjalar um leið og hún hæfi störf sem formaður BSRB.

„Ég vil með framboði mínu vinna að samvinnu og samheldni innan BSRB og láta gott af mér leiða," segir Jakobína. „Ég vil efla þjónustu við félagsmenn og aðildarfélög þeirra og standa vörð um þau mannréttindi og velferðarmál sem forfeður okkar hafa mótað og sett upp til verndar einstaklingum. Ég vil jafnframt opna fyrir ný viðhorf og frekari umbreytingu samfélaginu til handa. Fyrst og síðast vil ég gera vel, vinna faglega og ná tiltrú fólks til hagsbóta fyrir BSRB," segir ennfremur í fréttatilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×