Fleiri fréttir

Fara enn huldu höfði

Ungu mennirnir þrír, sem lögreglan hefur lýst eftir um allt land eftir að þeir numu ungan mann af heimili hans í Garðabæ á laugardagsvköldið og misþyrmdu uppi í Heiðmörk, fara enn huldu höfði.

Pétur Þorvarðarson enn ófundinn

Leit stendur enn að Pétri Þorvarðarsyni, sem fór fótgangandi frá Grímsstöðum á Fjöllum aðfararnótt sunnudags. Engar vísbendingar hafa fundist um afdrif Péturs.

Fangauppreisn lokið

Uppreisn fanga í 70 fangelsum í Sao Paulo í Brasilíu er lokið og hafa um 200 gíslar verið látnir lausir. Minnst 80 hafa látist í öldu ofbeldis á svæðinu sem hófst á föstudaginn.

Álag á krókódílaveiðimenn mikið

Eftir þrjár bannvænar árásir krókódíla í síðastliðinni viku í Flórída í Bandaríkjunum hefur álagið hjá krókódílaveiðimönnum aldrei verið meira. Fjöldi símtala sem þeir fá hefur meira en þrefaldast og eru áhyggjur Flórídabúa miklar. Árásir krókódíla á menn eru fátíðar.

Hamas viðurkenni ekki Ísraelsríki

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínumanna, hafnaði í gær kröfum alþjóðasamfélagsins um að Hamas-stjórn hans viðurkenni Ísraelsríki og afneitaði ofbeldismönnum. Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti um tíu þúsund stuðningsmönnnum sínum í borginni Rafah á Gaza-ströndinni í gær.

Enn hætta við Merapi

Gas og grjót halda áfram að falla niður hliðar eldfjallsins Merapi á indónesísku eyjunni Jövu. Eitthvað virðist þó hafa hægst en eldfjallasérfræðingar vara þó við að gosið geti færst í aukana fljótlega þó það virðist í rénun nú.

Þjóðvarðliðar að landamærum

Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi að hann ætlaði að senda allt að 6000 þjóðvarðliða til landamæranna að Mexíkó og er það liður í nýrri áætlun sem miðar að því að stemma stigu við straumi ólöglegra innflytjenda frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Mexíkó eru uggandi og stjórnmálaskýrendur segja áætlunina útþynnta.

Jimmy Carter gagnrýnir Bandaríkjastjórn harðlega

Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, gagnrýnir harðlega stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum Palestínu. Hann segir að komið sé fram við saklaust fólk eins og dýr eingöngu vegna þess að það kaus Hamas til að stjórna landinu.

Íslensk börn fá þriðjung orku sinnar úr næringarlausu fæði

Íslensk börn fá allt að þriðjung orku sinnar úr sælgæti, kexi og öðrum neysluvörum sem innihalda litla sem enga næringu. Engin önnur börn í Evópu neyta jafn lítils magns af ávöxtum og grænmeti. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrra rannsókna á mataræði skólabarna á aldrinum 9-15 ára.

Eftirlýstir af lögreglunni í Kópavogi

Þrír menn eru eftirlýstir af lögreglu vegna alvarlegrar líkamsárásar á laugardagskvöld. Mennirnir rændu fórnarlambinu af heimili þess og liggur það nú þungt haldið á spítala. Mennirnir þrír eru þekktir í undirheimum Garðabæjar og hafa allir komið marg oft við sögu lögreglu. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að í það minnsta einn þeirra sé viðriðinn sveðjuárás í Garðabæ í fyrra og að hinir tveir séu á skilorði.

Leitin að Pétri Þorvarðarsyni hefur engan árangur borið

Leitin að Pétri Þorvarðarsyni sem saknað hefur verið frá Grímsstöðum á Fjöllum síðan í fyrrinótt hefur engan árangur borið. Á þriðja hundrað björgunarmanna og nokkrir sporhundar taka nú þátt í leitinni, en þyrla varnarliðsins er hætt leit í dag og ekki hefur verið ákveðið hvenar leit hefst aftur á morgun.

Varðeldur kveiktur í skógrækt við Rósaselstjarnir

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og lögreglan börðust síðdegis við þó nokkurn sinueld á skógræktarsvæði við Rósaselstjarnir ofan við byggðina í Keflavík. Varðeldur hafði verið kveiktur í skógræktinni og af ummerkjum að ráða hafði verið gerð tilraun til að poppa poppkorn á eldinum sem síðan barst í skógræktina.

Járnblendistörf kunna að flytjast til Íslands

Á næstunni verður tekin ákvörðun um að bæta við framleiðslu Íslenska járnblendifélagsins, sem kann að hafa í för með sér 30 - 40 viðbótarstörf við járnblendið á Grundartanga. Norska ríkisútvarpið segir að 120 störf séu í hættu í Aalvik í Harðangri ef svo fer sem horfir að framleiðsla á magnesíum kísiljárni flytjist frá Noregi til Íslands.

Óttast um á fjórðu milljón manna í Darfur

Óttast er um afdrif þriggja og hálfrar milljónar manna í Darfúr héraði í Súdan, eftir að mataraðstoð Sameinuðu þjóðanna var skorin niður um helming. Mikill þrýstingur er á stríðandi fylkingar að semja um frið.

Vilja tómstundastarf á vinnutíma

Tómstundastarf barna á skólaaldri er frambjóðendum í Reykjavík ofarlega í huga og vilja þeir tvinna það við skólastarfið svo því verði lokið innan hefðbundins vinnutíma. Skiptari skoðanir eru um skólabúninga, fríar máltíðir í skólum og gjaldfrjálsa leikskóla

Viðbrögð við Fuglaflensu á áhættustig 1

Þar sem ekki hefur verið staðfest tilvik fuglaflensu (Avian Influensu af H5N1 stofni) á Íslandi hefur landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum Landbúnaðarstofnunar, ákveðið að aflétta þeim ráðstöfunum sem mælt var fyrir um tímabundnar varnaðaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa eða Avian Influensa berist í alifugla.

Sala á greiningarlyfjum gæti skapað tekjur innan skamms

Íslensk erfðagreining og bandaríska fyrirtækið Illumina, sem sérhæfir sig í þróun tækja sem notuð er til erfðarannsókna, greindu frá því í dag að þau hafi tekið upp samstarf um að þróa og markaðssetja DNA-greiningarpróf fyrir algenga sjúkdóma.

Vilja ekki stækkun álversins

Vinstri-grænir í Hafnarfirði eru andvígir stækkun álversins í Straumsvík og hyggjast beita sér gegn henni í bæjarstjórn nái þeir til þess kjöri. Þeir vilja auk þess auka vægi íbúa Hafnarfjarðar í ákvarðanatöku um mál sem snerta þá.

Málþing hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands og Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, standa að málþingi sem ber yfirskriftina Trúfrelsi og lífsskoðanafélög. Lífsskoðanafélög eru félög sem fjalla um siðferði og lífsskoðanir og sjá meðlimum fyrir félagslegum athöfnum eins og nafngift, fermingu, giftingu og greftrun (dæmi Siðmennt á Íslandi og Human Etisk Forbund í Noregi) en tilgangur málþingsins er að fjalla um jafnræði trúfélaga, skráningu lífsskoðanafélaga og trúfrelsi á Íslandi.

Ekkert verður af setuverkfalli

Ekkert verður af setuverkfalli stuðningsfulltrúa hjá svæðisskrifstofum fatlaðra sem átti að hefjast í kvöld. Trúnaðarmenn starfsmanna samþykktu nýgerðan stofnanasamning á fundi í hádeginu og var hann undirritaður klukkan þrjú.

Þyrla Varnarliðsins aðstoðar við leit

Þyrla varnarliðsins er farin í loftið til að aðstoða við leit að Pétri Þorvarðarsyni 17 ára pilti, sem saknað er frá Grímsstöðum á Fjöllum síðan í fyrrinótt. Á þriðja hundrað björgunarmanna og nokkrir sporhundar taka nú þátt í leitinni og er búið er að kalla út björgunarsveitir frá svæði 9 og 10, einnig er verið að kalla út menn af höfuðborgarsvæðinu sem fara flugleiðis með flugvél Lanhelgisgæslurnar kl.17:00.

Bjarni Ármannsson nýr formaður stjórnar SBV

Bjarni Ármannsson var kjörinn formaður stjórnar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja á stjórnarfundi SBV sem haldin var í dag, 15. maí. Bjarni var kjörinn formaður til næstu tveggja ára, en ný stjórn var kjörin á aðalfundi SBV 27. apríl sl.

Lækkun fasteignaskatts samþykkt

Bæjarráð Akraness hefur samþykkt tillögur gjaldskrárnefndar sveitarfélagsins um reglur er varða lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.

Engir biðlistar eftir leikskólaplássi

Gert er ráð fyrir að öll börn fædd árið 2004, sem eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Fljótsdalshéraði, verði komin á leikskóla í haust. Á Fréttavefnum Austurlandið.is kemur fram að um er að ræða rúmlega 90% þeirra barna sem eru fædd á þessu ári og búa í sveitafélaginu.

Fannst látinn á Fjarðarheiði

Maður á sjötugsaldri fannst látinn á Fjarðarheiði um klukkan ellefu í gærkvöldi. Maðurinn hafði farið á bíl sínum upp á Fjarðarheiði til að ganga á skíðum. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita rétt fyrir miðnætti þegar hann skilaði sér ekki innan eðlilegra tímamarka. Um tíu björgunarsveitarmenn fóru á vélsleðum til leitarinnar. Maðurinn fannst síðan stuttu síðar í nágrenni við Heiðarvatn eða um einn kílómeter frá bíl sínum. Hann var þá látinn en talið er að hann hafi orðið bráðkvaddur.

Ýsuverð á uppleið

Verð á ýsu hefur hækkað miðað við síðastliðinn mánudag. Á heimasíðu Interseafood.com er greint frá því að verð á þorski og ufsa hafi lækkað í Hanstholm í Danmörku en framboð hefur aukist af öllum þremur fisktegundunum. Mest var framboðið af ýsu í Hanstholm í dag eða um 43% af heildarframboði. Nokkuð framboð var einnig af karfa en lítið hefur verið um karfa síðustu vikur. Framboð var þó mest af þorski.

Humar sumar á Hornafirði

Það er sannkallað humar sumar framundan á Hornafirði. Rúmlega fimmtíu skólakrakkar hafa verið ráðnir í humarvinnslu í Skinney-Þinganesi í sumar, en það er mun meiri fjöldi en hefur verið ráðinn til humarvinnslu síðustu ár.

Heilbrigðiskerfið gjaldþrota ef ekki fæst fé

Heilbrigðiskerfi Palestínumanna verður gjaldþrota innan tveggja mánaða ef Ísraelar og vesturveldin tryggja heimastjórninni ekki fé. Fjárskortur hefur þegar kostað sjúklinga lífið. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hvetur Ísraela til að setjast að samningaborðinu með sér og Hamas-liðum.

Tvær konur efstar á listum

Tvær konur leiða nú aðalstjórnmálafylkingarnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg, eftir að Eyþór Arnalds, oddivti sjálfstæðismanna, dró sig í hlé vegna ölvunaraksturs. Hann ætlar hins vegar að taka sæti í bæjarstjórninni þegar hann hefur tekið út refsingu fyrir brotið.

Ræðst hvort verður af setuverkföllum

Það ræðst í hádeginu hvort stuðningsfulltrúar sem vinna hjá svæðisskrifstofum fatlaðra fara í setuverkfall í kvöld eða ekki. Trúnaðarmenn stuðningsfulltrúa sitja nú fund með forystu SFR þar sem farið er yfir samning sem fulltrúar SFR og svæðisskrifstofa fatlaðra náðu samkomulagi um í gær.

Tilboð sem Íranar geti ekki hafnað

Evrópusambandið ætlar að gera Írönum tilboð sem Javier Solana, utanríkismálastjóri sambandsins, segir að þeim muni reynast erfitt að hafna. Hann segir tilboðið djarft og gert í þeirri von að hægt verði að binda enda á kjarnorkudeilu Írana við vesturveldin.

52 féllu í átökum glæpagengja og lögreglu

Að minnsta kosti fimmtíu og tveir féllu í átökum glæpagengja og lögreglu víðsvegar um Brasilíu um liðna helgi. Meðal þeirra sem létu lífið voru óbreyttir borgarar auk lögreglu- og slökkviliðsmanna. Minnst sextán hafa verið handteknir.

L-listinn kynnir bæjarstjóraefni sitt

Jóhannes Finnur Halldórsson, hagfræðingur og skrifstofustjóri á fjárreiðusviði Háskóla Íslands, verður bæjarstjóraefni L-lista félagshyggjufólks í Stykkishólmi. L-listinn býður fram til sveitastjórnarkosninga 27. maí næstkomandi, en bæjarstjórefni flokksins var kynnt á fundi síðastliðinn laugardag.

Ók öfugan hring í hringtorgi

Ökumaður var kærður fyrir að aka á móti umferð í hringtorginu á Ísafirði í nótt. Samkvæmt lögreglunni var ekki um ókunnugleika að ræða, en ökumaðurinn sá eflaust ekki fyrir kæru lögreglunnar áður en hann fór öfugan hring í hringtorginu.

Vinstri grænir tvöfalda fylgi sitt

Fylgi hrynur af Framsóknarflokknum á Akureyri en Vinstri grænir nánast tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum, samkvæmt þeim, sem tóku afstöðu í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Sjáflstæðisflokkurinn héldi sínum fjórum bæjarfulltrúum.

Hvetur landa sína til að taka höndum saman

Rene Preval tók formlega við embætti forseta Haítí í gær í annað sinn á áratug. Nýr forseti hvatti landa sína til að taka höndum saman en þjóðin hefur verið klofin frá því Jean-Bertrand Aristide, fyrrverandi forseta, var komið frá völdum fyrir tveimur árum í blóðugri uppreisn.

Réttarhöldin yfir Saddam halda áfram

Réttarhöldin yfir Saddam Hússein, fyrrverandi Íraksforseta, hefjast á ný í Bagdad, höfuðborg Íraks, í dag. Verjendur Hússeins taka þá til við sinn málflutning en réttarhlé hefur verið í þrjár vikur.

Ölvaður á 120 km hraða

Ökumaður var stöðvaður á rúmlega hundrað og tuttugu kílómetra hraða í Ártúnsbrekkunni um klukkan tvö í nótt og reyndist hann vera ölvaður. Tveir aðrir, sem voru stöðvaðir við venjulegt eftirlit, reyndust líka undir áhrifum áfengis.

Ræktunarland eyðileggst vegna flóða

Að minnsta kosti tveir hafa farist í miklum flóðum í Georgíu. Mörg hundruð hektarar ræktarlands hafa eyðilagst austur af höfuðborginni, Tíblisi, og flætt hefur inn í rúmlega tvö hundruð íbúðarhús.

Flokkurinn heldur sínu striki

Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður Fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Árborg, sagði í viðtali við NFS í morgun að flokkurinn myndi halda sínu striki þrátt fyrir áfall Eyþórs. Ekki yrði hróflað við framboðslistanum, enda væri það ekki heimild samkvæmt lögum. Sjálfstæðsimenn styttu ákvörðun Eyþórs og áform hans.

Játaði á sig hnífstungu

Karlmaður á tvítugsaldri var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gærkvöldi eftir að hafa játað á sig að hafa veitt ungum manni alvarlega áverka með hnífi í Hafnarfirði í fyrrinótt. Hann var í lífshættu þegar björgunarmenn komu á vettvang.

Ungi maðurinn ófundinn

Hátt í tvö hundruð björgunarsveitarmenn leituðu án árangurs í alla nótt að 17 ára pilti, Pétri Þorvaðrarsyni, sem fór frá bænum Grímstungu við Grímstaði á Fjöllum um klukkan fjögur í fyrrinótt. Fimm sporhundar voru þeim til aðstoðar og áhöfn þyrlu af dönsku varpðskipi, sem er í Reykjavík, leitaði í gærkvöldi.

Neyðarástand vegna flóða í Bandaríkjunum

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í nokkrum fylkjum á austurströnd Bandaríkjanna vegna mikilla flóða. Mikið hefur rignt á Nýja Englandi og í Massachusetts og hafa ár flætt yfir varnargarða og skolað burt vegum á nokkrum svæðum.

Sjá næstu 50 fréttir