Innlent

Vilja tómstundastarf á vinnutíma

Tómstundastarf barna á skólaaldri er frambjóðendum í Reykjavík ofarlega í huga og vilja þeir tvinna það við skólastarfið svo því verði lokið innan hefðbundins vinnutíma. Skiptari skoðanir eru um skólabúninga, fríar máltíðir í skólum og gjaldfrjálsa leikskóla

Fjórir af fimm listum sem bjóða fram fyrir borgarstjórnarkosningarnar vilja gjaldfrjálsa leikskóla. Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr og segir mikilvægara að tryggja þjónustuna áður en leikskólavist verður gjaldfrjáls. Þeir vilja lækka gjöldin um 25 prósent og að foreldrar þurfi ekki að greiða leikskólagjöld fyrir nema eitt barn í einu.

Skoðanirnar eru skiptari þegar kemur að skólabúningum grunnskólabarna. Framskóknarmenn eru þeir einu sem vilja að skólabúningar verði í öllum skólum borgarinnar. Vinstri grænir og Frjálslyndir vilja ekki skólabúninga og segir Ólafur F. Magnússon oddviti Frjálslyndra að slíkt sé til þess fallið að fela misréttið í samfélaginu. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn vilja að hver og einn skóli fái að ráða hvort þeir hafi skólabúninga, það sé ekki borgarinnar að draga ákveðna línu í því máli.

Allir flokkarnir eru á því að hafa hollan og fjölbreyttan mat ókeypis í grunnskólum borgarinnar. Frjálslyndir og Vinstri grænir vilja að maturinn sé frír í grunnskólunum. Björn Ingi Hrafnsson oddviti Framsóknarflokksins segist opinn fyrir því að skoða hvort hafa skuli skólamáltíðir ókeypis en vill athuga hvort það skipti meginmáli. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin vilja lækka verðið á skólamáltíðum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að gæði matarins verði aukin og verðið lækkað þannig að það verði á við nestispeninga. Samfylkinging vill bjóða út matinn og reyna þannig að lækka verðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×