Erlent

Heilbrigðiskerfið gjaldþrota ef ekki fæst fé

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, vill semja við Ísraelsmenn.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, vill semja við Ísraelsmenn. MYND/AP

Heilbrigðiskerfi Palestínumanna verður gjaldþrota innan tveggja mánaða ef Ísraelar og vesturveldin tryggja heimastjórninni ekki fé. Fjárskortur hefur þegar kostað sjúklinga lífið. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hvetur Ísraela til að setjast að samningaborðinu með sér og Hamas-liðum.

Hillur lyfjageymslunar á Shifa-sjúkrahúsinu í Gaza-borg eru hálftómar. Svæfingarlyf vantar og því geta skurðlæknar aðeins framkvæmt aðgerðir ef þær eru bráðnauðsynlegar. Sorphreinsun er nánast engin og skólpkerfið lítið sem ekkert hreinsað. Hætta er talin á að kólera og aðrir sjúkdómar brjótist út þegar hitin hækkar í sumar. Yfirvöld segja hægt að koma í veg fyrir mörg dauðsföll ef fé fáist hið fyrsta.

Síðan Hamas-liðar náðu meirihluta í þingkosningum Palestínumanna fyrr á árinu hafa Ísraelsmenn fryst greiðsl skatta og tolla sem þeir innheimta fyrir Palestínumenn og vesturveldin hætt fjárstuðningi. Leiðtogar þeirra ætla þó að leggja til neyðaraðstoð sem Hamas-stjórnin fái ekki. Starfsmenn hjálparsamtaka segja það ekki duga, það fé komi ekki í staðinn fyrir starfhæfa heimastjórn sem geti haldið innviðum samfélagsins gangandi.

Jafnvirði um 640 milljóna króna þarf á mánuði til að tryggja rekstur heilbrigðiskerfisins og fáist peningar ekki stefnir það í þrot á næstu tveimur mánuðum. Þetta kemur niður á þeim sem síst skyldi og hafa sjúklingar látist þar sem þeir hafi ekki fengið þá læknisaðstoð sem þörf var á. Sem dæmi hafi krabbameinssjúklingar ekki fengið nauðsynleg lyf og fyrirburar ekki þá aðstoð sem þeir þurfa.

Í dag er þess minnst að 58 ár eru liðin frá stofnun Ísraelsríkis. Um leið minnast Palestínumenn Hörmunganna miklu - Nakba - þegar Palestínumenn voru hraktir af landi sínu. Í sjónvarpsávarpi af því tilefni hvatti Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, Ísraela til að snúa aftur að samningaborðinu. Hann benti einnig Hamas-liðum á að þeir yrðu að breyta stefnu sinni og reyna að semja við Ísraelsmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×