Erlent

Jimmy Carter gagnrýnir Bandaríkjastjórn harðlega

Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, gagnrýnir harðlega stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum Palestínu. Hann segir að komið sé fram við saklaust fólk eins og dýr eingöngu vegna þess að það kaus Hamas til að stjórna landinu.

Í grein eftir Carter sem birtist í International Herald Tribune þann 7. maí segir hann að með stefnu sinni séu Bandaríkjamenn að koma í veg fyrir að almenningur í Palestínu geti framfleitt sér og sínum. Hann gagnrýnir harðlega að verið sé að svelta þjóðina fjárhagslega eingöngu vegna þess að hún kaus meðlimi Hamas samtakanna til að stjórna landinu. Carter segir kosningarnar í Palestínuhafa farið löglega og eðlilega fram að öllu leiti og að hún hafi verið lýðræðisleg. Fólkið í landinu hafi ákveðið að kjósa Hamas í örvæntingu sinni vegna þess hve illa friðarviðræður við Ísraelsmenn gengu en Ísraelsmenn höfðu forðast slíkar viðræður síðast liðin fimm ár.

Hann segir furðulegt að Bandaríkjamenn skuli ekki viðurkenna niðurstöður kosninga sem voru friðsamlegar og réttlátar. Þrátt fyrir að Hamas samtökin neiti að viðurkenna Ísraelsríki þá segir Carter í greininni að forsætisráðherra Palenstínu hafi lýst því yfir að hann sé samþykkur friðarviðræðum milli forseta landsins og Ehud Olmerts forsætisráðherra Ísraels. Þá segir Carter Bandaríkjamenn, Ísraela og aðrar þjóðir sem fylgja þeirra stefnu vera samvikulausa ef þeir halda áfram að refsa saklausum og ofsóttum íbúum Palenstínu með fjársvelti sínu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×