Innlent

Humar sumar á Hornafirði

Mynd/Júlía Imsland

Það er sannkallað humar sumar framundan á Hornafirði. Rúmlega fimmtíu skólakrakkar hafa verið ráðnir í humarvinnslu í Skinney-Þinganesi í sumar, en það er mun meiri fjöldi en hefur verið ráðinn í humarvinnslu síðustu ár.

Humarvertíðin er komin á fullt á Hornafirði og veiðar lofa góðu því sjaldan hefur jafnmikið veiðst af humri og nú. Hjá Skinney-Þinganesi hf. eru fjórir bátar á veiðum og munu veiðar standa þar til humarkvótinn klárast sem hefur hingað til verið um mánaðarmót júní-júlí. Rúmlega fimmtíu skólakrakkar hafa verið ráðnir í humarvinnslu í ár og er það meiri fjöldi en ráðinn hefur verið síðastliðin ár. Skólakrakkarnir er flestir á sextánda og sautjánda aldursári og mættu þeir eldri formlega til vinnu í morgun, en þau sem eru á sextánda ári byrja þegar grunnskóla lýkur. Mikil vinna er framundan og því sjá margir fram á góðar tekjur í sumar.

Hermann Stefánsson, framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganesi hf., segir að krakkar vilji fá vinnu í humri og velflestir á þessum aldri muni vinna í humrinum í sumar.

Hann segir að humarinn sé seldur víða um heim en vaxandi markaður sé á Íslandi. Heill humar selst aðallega til Ítalíu, Spánar og Japans og humarhalar eru einkum seldir til Bandaríkjanna og Kanada.

Það er ekki ofsögum sagt að humarinn sé stolt Hornfirðinga og það fer varla framhjá neinum sem leggur leið sína til Hornafjarðar. Hermann segir að margir vilji meina að humarinn sé fæddu og uppalinn við strendur Hornafjarðar. Hann segir að humarinn skipi sterkan sess í hugum Hornfirðinga, sérstök humarhátíð sé haldin á sumrin auk þess sem heimamenn séu duglegir að borða, elda, steikja og grilla humar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×