Erlent

Hvetur landa sína til að taka höndum saman

Rene Preval.
Rene Preval. Mynd/AP

Rene Preval tók formlega við embætti forseta Haítí í gær í annað sinn á áratug. Nýr forseti hvatti landa sína til að taka höndum saman en þjóðin hefur verið klofin frá því Jean-Bertrand Aristide, fyrrverandi forseta, var komið frá völdum fyrir tveimur árum í blóðugri uppreisn.

Mörg þúsund íbúar á Haítí komu saman við forsetahöllina til að taka þátt í innsetningarathöfninni í gær. Preval, sem er sextíu og þriggja ára, tekur við af bráðabirgðastjórn sem tók við eftir að Aristide hraktist í útlegð. Sú stjórn hefur notið stuðnings Bandaríkjamanna.

Preval hefur barist fyrir réttindum fátækra í landinu. Í ræðu hvatti hann landa sína til að sameinast en þeir hafa verið sundraði eftir brotthvarf Aristide. Fjölmargir stuðningsmenn forsetans fyrrverandi greiddu Preval atkvæði í kosningum í febrúar þar sem þeir töldu að hann myndi hleypa Aristide aftur inn í landið. Skömmu eftir að Preval tók við völdum í gær undirritaði hann samning um olíusölu frá Venesúela. Bandaríkjamenn hafa enn mikil ítök á Haítí og sendi Bush Bandaríkjaforseti bróður sinn Jeb, ríkisstjóra Flórída, til viðræðan við nýja forsetann. Næstu ár verða Preval að öllum líkindum erfið en efnahagur landsins er í molum og treystir mikið á erlenda aðstoð. Auk þess er lögregla í landinu illa skipulögð og dómskerfi veikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×