Lífið

Gengst við geðhvarfasýki og biðst af­sökunar: „Hlutirnir urðu verri því lengur sem ég hundsaði vanda­málið“

Samúel Karl Ólason skrifar
Kanye West og Bianca Censori á Grammy-verðlaunahátíðinni í Los Angeles í fyrra.
Kanye West og Bianca Censori á Grammy-verðlaunahátíðinni í Los Angeles í fyrra. Getty/Axelle/Bauer-Griffin, FilmMagic

Kanye West, eða Ye, greiddi fyrir heilsíðuauglýsingu í Wall Street Journal sem kom út í dag, þar sem hann baðst afsökunar á framferði sínu undanfarin ár. Yfirlýsingin sem birt var er titluð „Til þeirra sem ég hef sært“ og beinir hann afsökunarbeiðni sinni sérstaklega til þeldökkra Bandaríkjamanna og gyðinga.

Hann segist hafa verið í löngu maníukasti sem hafi eyðilagt líf sitt og gefur hann til kynna að hann hafi íhugað að svipta sig lífi.

Á þessu tímabili fór hann mikinn gegn gyðingum á X (áður Twitter), seldi boli merkta hakakrossinum, sagðist elska Adolf Hitler og lýsti því yfir að hann væri nasisti, svo eitthvað sé nefnt. West segist ekki muna eftir mörgu sem hann gerði.

„Ég er ekki nasisti,“ segir West í yfirlýsingunni í WSJ.

Greindist 2023

Hann segist hafa verið greindur með geðhvarfasýki árið 2023 og að hann hafi ekki getað sætt sig við það. Í kjölfarið hafi hann misst tengslin við raunveruleikann.

Sjá einnig: „Kemur í ljós að þetta er í raun ein­hverfa“

„Hlutirnir urðu verri því lengur sem ég hundsaði vandamálið. Ég sagði og gerði hluti sem ég sé innilega eftir,“ skrifaði West. Hann bætti við að hann hafi verið verstur við þá sem hann unni mest.

West segir að veikindum hans hafi fylgt mikil afneitun. Hann hafi verið sannfærður um að ekkert væri að honum og að viðbrögð fólks við aðgerðum hans væru yfirdrifin.

„Þér finnst þú sjá heiminn skýrar en nokkru sinni áður, á meðan hið sanna er að þú ert að tapa þér algerlega.“

Hann segist hafa verið blindaður og fundist hann einstaklega öflugur og jafnvel óstöðvandi.


Eiginkonan fékk hann til að leita aðstoðar

Tónlistarmaðurinn segist hafa náð botninum fyrir nokkrum mánuðum og þá hafi Bianca Censori, eiginkona hans, hvatt hann til að leita sér loks aðstoðar.

Sjá einnig: „Ye mátti þola versnandi and­lega heilsu vegna gjörða þinna“

Sögur annarra sem hann fann á Reddit-spjallþráðum hjálpuðu West mikið, að hans eigin sögn. Hann segist hafa lesið þær og áttað sig á því að hann væri ekki einn.

„Það er ekki bara ég sem rústa lífi mínu einu sinni á hverju ári þrátt fyrir að taka lyf á hverjum degi og að vera sagt af svokölluðum bestu læknum í heimi að ég sé ekki með geðhvarfasýki, heldur sé ég eingöngu að upplifa „einkenni einhverfu“.

Segist á mun betri stað

West segist sjá gífurlega eftir því sem hann gerði og að hann sé staðráðinn í að bæta sig og betra. Þó tekur hann fram að það bæti ekki upp fyrir það sem hann gerði af sér.

„Ég er hvorki nasisti né gyðingahatari. Ég elska gyðinga.“

Þá segist hann sjá eftir því að hafa brugðist samfélagi þeldökkra í Bandaríkjunum. Það samfélag hafi komið honum í gegnum mjög erfiða tíma og spili stærðarinnar rullu í lífi hans.

„Ég er miður mín yfir því að hafa brugðist ykkur. Ég elska okkur.“

West segist á mun betri stað núna. Hann sé kominn á betri lyf, í meðferð og rækti bæði líkama og sál. Hann hafi fundið nýjan skýrleika og beini allri orku sinni nú á jákvæðan hátt í list sína.

„Ég er ekki að biðja um samúð eða syndaaflausn, þó ég vonist til að vinna mér inn fyrirgefningu ykkar. Ég skrifa þetta í dag eingöngu til að biðja um þolinmæði og skilning á meðan ég finn aftur leiðina heim.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.