Fótbolti

Slóst við bolta­stráka sem vildu stela hand­klæðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Þrátt fyrir að vera varamarkvörður þá stóð Yehvann Diouf í ströngu í úrslitaleik Afríkumótsins í gær, eins og sjá má. En hann passaði handklæðið fyrir sinn mann!
Þrátt fyrir að vera varamarkvörður þá stóð Yehvann Diouf í ströngu í úrslitaleik Afríkumótsins í gær, eins og sjá má. En hann passaði handklæðið fyrir sinn mann! Samsett/Skjáskot/Getty

Yehvann Diouf, varamarkvörður Senegals, barðist með kjafti og klóm um handklæði, við boltastrákana á úrslitaleiknum við Marokkó í Afríkukeppninni í fótbolta í gærkvöld.

Atburðarásin í leiknum sjálfum og eftir hann var alveg nógu lygileg en við hana bætist handklæðaslagurinn mikli utan vallar.

Marokkó var á heimavelli á mótinu og gestgjafarnir stunduðu það að koma í veg fyrir að markmenn mótherjana væru með handklæði til taks hjá sínu marki, til að þurrka bleytu af sér og hönskunum.

Þannig mátti sjá boltastráka og jafnvel aðra starfsmenn á vellinum taka handklæðin í burtu. Það reyndist þeim hins vegar ómögulegt í úrslitaleiknum í gær því fyrrnefndur Diouf passaði vel upp á handklæðið fyrir félaga sinn Édouard Mendy, sem reyndist svo hetja Senegals þegar hann varði vítaspyrnu Brahim Díaz undir lok venjulegs leiktíma.

Það er engin nýlunda að gestgjafar stríði mótherjum sínum með því að fjarlægja handklæði, eins og Svisslendingar gerðu til að mynda á EM í sumar þegar þeir tóku handklæði sem Sveindís Jane Jónsdóttir ætlaði að nýta til að þurrka af boltanum fyrir löng innköst.

Hins vegar er það óvenjulegt hve ósvífnir Marokkómenn voru í þessum efnum, alveg svo að Diouf þurfti hreinlega að slást við boltastrákana til að halda í handklæðið.

Segja má að réttlætið hafi sigrað að lokum því Diouf, Mendy og félagar í senegalska liðinu fögnuðu að lokum sigri í framlengdum leik, eftir mikið fíaskó í lok venjulegs leiktíma þar sem Senegalar strunsuðu af velli eftir tvo skelfilega dóma.

Sadio Mané sá þó til þess að þeir sneru aftur út á völlinn og á endanum gátu þeir allir fagnað sigri. Marokkóar voru hins vegar afar svekktir og lætin héldu áfram á blaðamannafundi Senegala eftir leik, þar sem þjálfarinn Pape Thiaw endaði á að rjúka út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×