Innlent

„Ís­land stendur þétt með vinum sínum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Jens-Frederik Nielsen formaður landsstjórnar Grænlands og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Jens-Frederik Nielsen formaður landsstjórnar Grænlands og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. Forsætisráðuneytið

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er meðal þeirra norrænu leiðtoga sem lýst hafa yfir stuðningi við Grænland og Danmörku í framhaldi af enn einum ummælum Bandaríkjaforseta þar sem hann lýsir ósk sinni um að eignast Grænland.

„Grænland er hluti af danska konungsríkinu. Ekkert um Grænland án Grænlands. Ísland stendur þétt með vinum sínum,“ skrifar Kristrún í færslu á Facebook í gærkvöldi, um leið og hún deilir mynd af sér með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Jens-Frederik Nielsen, formanni grænlensku landstjórnarinnar.

Í framhaldi af árás Bandaríkjanna á Venesúela um helgina, sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í viðtali við The Atlantic að Bandaríkin „þurfi“ að eignast Grænland. Áður hafði Katie Miller, eiginkona eins nánasta ráðgjafa Trump og fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi í ríkisstjórn hans, deilt mynd á samfélagsmiðlum af Grænlandi í búningi bandaríska fánans ásamt textanum „bráðum.“

Síðan hafa meðal annars Mette Frederiksen, Jens-Frederik Nielsen og sendiherra Danmerkur í Bandaríkjunum ítrekað að virða beri fullveldi danska konungsríkisins og friðhelgi landamæra Grænlands. Nú hefur Kristrún ásamt öðrum norrænum leiðtogum lýst yfir stuðningi við grannríkin.

DR greinir frá því nú í morgun að Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Alexander Stubb, forseti Finnlands, hafi lýst yfir stuðningi við Danmörku. Færsla Kristrúnar virðist hafa farið fram hjá blaðamanni DR þar sem hennar er ekki getið í upptalningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×