Innlent

Hafði komið sér fyrir á háa­lofti hótels

Atli Ísleifsson skrifar
Tveir gista fangageymslu lögreglunnar eftir nóttina.
Tveir gista fangageymslu lögreglunnar eftir nóttina. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út að hóteli í Reykjavík þar sem óskað var eftir aðstoð þar sem óvelkominn einstaklingur hafði komið sér fyrir á háalofti hótelsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Þar kemur fram að tveir gistu fangageymslur lögreglu í morgunsárið.

Einnig segir að maður hafi verið handtekinn eftir að hafa barið annan mann í höfuðið með glasi. Hinn slasaði var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans til skoðunar en að ekki sé vitað um alvarleika áverka.

Þá var tilkynnt um foktjón þar sem grindverk hafði fokið út á akbraut. Grindverkið var fjarlægt og reynt að skorða það svo það færi ekki aftur af stað.

Enn fremur segir að tilkynnt hafi verið um umferðaróhapp þar sem ekið var á kyrrstæðan bíl. Ökumaður bílsins er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og er vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Loks segir að lögregla hafi verið kölluð út eftir að tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki á svæði lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Kópavog og Breiðholt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×