Enski boltinn

Hvað þarf Chiesa eigin­lega að gera til að fá fleiri mínútur hjá Liverpool?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Federico Chiesa fær að margra mati ósanngjarna meðferð hjá Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool.
Federico Chiesa fær að margra mati ósanngjarna meðferð hjá Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool. Getty/Chris Brunskill

Ekkert gengur hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og staðan gæti verið miklu verri ef liðið hefði ekki haft ítalska framherjann Federico Chiesa.

Chiesa hefur átt nokkrar eftirminnilegar endurkomur á tímabilinu en þrátt fyrir það fær hann lítil sem engin tækifæri með liðinu og kemur helst við sögu þegar allt er komið í óefni.

Í jafnteflinu á móti Sunderland í vikunni spretti Chiesea alla leið aftur í vörnina þegar framherji Sunderland slapp einn í gegn.

Sunderland-maðurinn Wilson Isidor sólaði Alisson í markinu en Chiesea tókst að bjarga á marklínu og bjarga því að Sunderland vann ekki á Anfield.

Chiesea hefur aðeins spilað samtals í 139 mínútur í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og hefur gert margt gott.

Hann skoraði sigurmarkið á móti Bournemuth, jöfnunarmark á móti Crystal Palace, lagði upp jöfnunarmark á móti Manchester United og bjargaði síðan stiginu á móti Sunderland.

Chiesea hefur komið með beinum hætti að þremur mörkum á þessum 139 mínútum (2 mörk + 1 stoðsending) eða marki á 46 mínútna fresti.

Mohamed Salah hefur komið að marki á 187 mínútna fresti, Cody Gakpo hefur komið að marki á 150 mínútna fresti og Hugo Ekitiké hefur komið að marki á 177 mínútna fresti svo einhverjir séu nefndir. Alexander Isak hefur komið að tveimur mörkum á 475 mínútum og Florian Wirtz hefur komið að einu marki á 858 mínútum.

Það er því ekkert skrýtið að menn spyrji: Hvað þarf Chiesa eiginlega að gera til að fá fleiri mínútur hjá Liverpool?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×