Enski boltinn

Sjáðu mark Andra í leik sem gerði þjálfara hans æfan

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen glaður eftir markið sem hann skoraði gegn Ipswich í gærkvöld.
Andri Lucas Guðjohnsen glaður eftir markið sem hann skoraði gegn Ipswich í gærkvöld. Getty/Alex Dodd

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sitt sjötta mark í síðustu átta leikjum fyrir Blackburn Rovers í ensku B-deildinni í fótbolta í gærkvöld, í ansi umdeildri viðureign við Ipswich Town.

Mark Andra Lucasar var skallamark á 76. mínútu og útlit var fyrir að það yrði sigurmark en Sindre Walle Egeli náði að jafna metin á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggja gestunum stig.

Eins og sjá má í syrpunni úr leiknum hér að ofan þá hefði Ipswich getað misst mann af velli með rautt spjald þegar Azor Matusiwa braut á Ryoya Morishita sem var á leið að marki Ipswich. Dómarinn taldi hins vegar Leif Davis koma í veg fyrir að Matusiwa teldist sem aftasti varnarmaður og gaf honum gult spjald.

Þetta fór illa í Blackburn-menn, ekki síst vegna alls sem á undan er gengið því leikurinn átti upphaflega að fara fram í september. Þá var Blackburn einnig yfir, og Ipswich búið að missa mann af velli með rautt spjald, þegar dómarinn flautaði leikinn af vegna mikillar bleytu. Þrátt fyrir að aðeins væru þá rúmar tíu mínútur eftir af leiknum og staðan eins og hún var, þá var ákveðið að leikurinn yrði spilaður aftur að fullu og staðan yrði aftur 0-0.

Valerien Ismael, þjálfari Blackburn, fór mikinn í viðtali við BBC eftir leikinn í gær og sagði dómgæsluna í deildinni til skammar. Var hann sérstaklega óánægður með að rauða spjaldið færi ekki á loft í gær og sagði um augljóst rautt spjald að ræða í tilviki Matusiwa.

„Í hverjum einasta leik, á þriggja daga fresti, er þetta eins með þessar ákvarðanir og standardinn er virkilega lélegur. Þetta er ólíðandi. Það geta komið ein eða tvær rangar ákvarðanir og þá segi ég ekkert en þetta með rauða spjaldið var svo augljóst,“ sagði Ismael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×