Enski boltinn

„Förum ekki fram úr okkur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice fagnar hér sigri Arsenal í kvöld.
Declan Rice fagnar hér sigri Arsenal í kvöld. Getty/David Price

Declan Rice, miðjumaður Arsenal, var kátur í leikslok eftir 3-1 sigur á Bayern München í Meistaradeildinni í kvöld.

„Sjáið bara Bayern München á þessu tímabili, þeir hafa verið besta lið Evrópu. Þetta var sennilega erfiðasti leikurinn taktískt séð sem við höfum spilað á þessu tímabili,“ sagði Declan Rice, miðjumaður Arsenal, í samtali við TNT Sports eftir leikinn.

„Við spiluðum maður á mann gegn þeim í seinni hálfleik og mér fannst við vera framúrskarandi í kvöld. Stjórinn er svo ánægður. Þetta var sérstakt evrópskt kvöld,“ sagði Rice.

„Þetta er klárlega öðruvísi en á síðasta tímabili. Það eru svo margir leiðtogar í liðinu. Við tökum bara einn leik í einu. Það er hungur og löngun til að vinna hvern einasta leik. Það er langt í land – förum ekki fram úr okkur,“ sagði Rice.

„Það hefur verið svo auðvelt að spila með Martín Zubimendi. Frá fyrstu stundu sem við áttum saman á undirbúningstímabilinu vissi ég bara að við myndum spila góðan fótbolta. Mér líkar mjög vel við hann, hann er svo indæll strákur,“ sagði Rice.

„Hann er númer sex hjá Spáni og þið vitið hvernig spænskir númer 6 eru. Hann hefur verið svo, svo góður fyrir okkur. Hver leikur krefst einhvers nýs. Hver leikmaður þekkir sitt hlutverk,“ sagði Rice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×