Tónlist

Reggí-risinn Jimmy Cliff allur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Jimmy Cliff er einn stærsti reggítónlistarmaður sögunnar og samdi hann ófáa slagara.
Jimmy Cliff er einn stærsti reggítónlistarmaður sögunnar og samdi hann ófáa slagara.

Jamaíska reggígoðsögnin Jimmy Cliff, sem átti stóran þátt í að breiða út reggí til heimsbyggðarinnar, er látinn 81 árs að aldri. 

Ekkja Cliff, Latifa Chambers, greindi frá andláti hans í færslu á Instagram og sagði hann hafa látist vegna flogakasts í kjölfar lungnabólgu.

Cliff lék aðalhlutverkið í jamaísku glæpamyndinni The Harder They Fall (1972) sem er enn í dag ein stærsta og vinsælasta kvikmynd landsins. Tónlist myndarinnar var gefin út í plötu og átti stóran þátt í að kynna heimsbyggðina fyrir reggítónlist. 

Meðal þekktustu slagara Cliff eru lögin „You Can Get It If You Really Want,“ I Can See Clearly Now“ og „Wonderful World, Beautiful People“. Cliff er einn af fáum tónlistarmönnum sem hafa hlotið heiðursorðu Jamaíka.

Kom reggíi á kortið

Cliff fæddist í Saint James-sýslu í Jamaíku árið 1944 og hóf tónlistarferil sinn á sjöunda áratugnum eftir að hafa flutt til höfuðborgarinnar, Kingston.

Lög Cliff urðu vinsæl í heimalandinu og var hann valinn sem fulltrúi Jamaíka á heimssýninguna í New York árið 1964.

Jimmy Cliff gaf út meira en þrjátíu plötur á ferli sínum.

Hann skrifaði í kjölfarið undir hjá Island Records og flutti til Lundúna. Útgáfufyrirtækið reyndi fyrst að markaðssetja tónlist Cliff fyrir rokk-hlustendur sem gekk illa. Hann sló svo í gegn með smáskífunni “Wonderful World, Beautiful People“ árið 1969.

Hann samdi síðan mótmælalagið „Vietnam“ og gerði ábreiðu af „Wild World“ eftir Cat Stevens áður en hann lék í jamaísku glæpamyndinni The Harder They Come (1972). Samnefnd plata sem innihélt kvikmyndatónlist myndarinnar kom heimsbyggðinni á reggíbragðið.

Cliff var áfram afkastamikill á áttunda og níunda áratugnum, gaf út mikið af tónlist og ferðaðist um heiminn á tónleikaferðalögum. Hann ferðaðist síðan til Afríku til að tengjast rótum sínum og tók þá upp Íslamstrú.

Ný kynslóð uppgötvaði tónlist Cliffe árið 1994 þegar kvikmyndin Cool Runnings kom út því lag hans, „I Can See Clearly Now,“ var í myndinni og rauk aftur upp á vinsældarlista. 

Síðasta plata Cliff, Refugees, kom út árið 2022 en hann vann hana með Wyclef Jean. Allt í allt gaf hann út meira en þrjátíu plötur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.