Veður

Norð­læg átt og lengst af þurrt suðvestan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu núll til sex stig, mildast syðst.
Hiti á landinu verður á bilinu núll til sex stig, mildast syðst. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir norðlægri átt í dag, þremur til tíu metrum á sekúndu, en aðeins hvassari á Vestfjörðum í fyrstu.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði dálítil slydda eða þokusuld norðan- og austantil og lítilsháttar væta sunnanlands, en lengst af þurrt á Suðvesturlandi.

Hiti verður á bilinu núll til sex stig, mildast syðst.

„Á morgun verður austlæg átt 3-10 m/s, en 10-15 við suðurströndina. Víða dálítil rigning eða súld, en bætir í úrkomu sunnantil eftir hádegi. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag er útlit fyrir vaxandi austan- og norðaustanátt, 10-18 m/s um kvöldið. Dálítil rigning af og til, en lengst af þurrt fyrir norðan. Hiti 2 til 7 stig að deginum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag og fimmtudag: Austlæg átt 3-8 m/s, en 8-13 við suðurströndina. Skýjað með köflum og sums staðar lítilsháttar skúrir eða él, en lengst af þurrt norðvestanlands. Hiti 0 til 7 stig að deginum, mildast syðst.

Á föstudag: Norðaustan 5-13, en heldur hvassari syðst. Snjókoma eða rigning með köflum sunnan- og austanlands, en þurrt að kalla norðan- og vestantil. Hiti breytist lítið.

Á laugardag: Norðaustan 8-15. Rigning eða slydda, en snjókoma á heiðum. Styttir upp á Suðvestur- og Vesturlandi, en hvessir og fer að rigna þar um kvöldið. Hiti víða á bilinu 0 til 5 stig.

Á sunnudag: Austan- og suðaustanátt og rigning eða slydda, einkum sunnan- og austanlands. Hiti 2 til 10 stig, mildast á Suðurlandi.

Á mánudag: Austanátt með rigningu, en slydda eða snjókoma á heiðum. Dregur úr ofankomu norðanlands þegar líður á daginn. Hiti 4 til 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×