Innlent

Ó­vænt stólaskipti skyggðu ekki á Bandaríkjareisuna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Karl Gauti segist einfaldlega bara hlýða og Bergþór Ólason tekur við í forsætisnefnd en hér eru þeir ásamt Sigmundi Davíð formanni flokksins árið 2019. 
Karl Gauti segist einfaldlega bara hlýða og Bergþór Ólason tekur við í forsætisnefnd en hér eru þeir ásamt Sigmundi Davíð formanni flokksins árið 2019.  Vísir/Vilhelm

Bergþór Ólason hefur tekið sæti Miðflokksins í forsætisnefnd Alþingis í stað Karls Gauta Hjaltasonar. Þá skellti þingflokkurinn sér saman til Washington á dögunum.

„Það er búið að ganga frá því í þinginu. Bergþór Ólason er tekinn við af mér,“ segir Karl Gauti í samtali við Vísi. Hann segir það einfaldlega hafa borið að með þeim hætti að Bergþór hafi hætt sem þingflokksformaður og fært sig yfir í forsætisnefnd. 

Karl viðurkennir að þetta feli í sér launaskerðingu en virðist hvergi banginn vegna málsins.

Ertu sáttur við þetta?

„Ég hlýði bara,“ svarar Karl Gauti sem bætir því við að stemningin í þingflokki Miðflokksins sé mikil þessa dagana. Karl Gauti var 3. varaforseti þingsins en nú er Bergþór tekinn við því hlutverki. 

Bergþór hætti nýverið sem þingflokksformaður í aðdraganda kosningar um varaformannsembættið hjá flokknum. Áður en til atkvæðagreiðslunnar kom dró Bergþór framboð sitt óvænt til baka. Snorri Másson var svo kjörinn varaformaður flokksins.

Velheppnuð ferð til Washington

Karl Gauti segir að flokkurinn finni fyrir meðbyr og hafi auk þess skellt sér í þriggja daga ferð til Washington í síðustu viku á meðan afgangur þingheims var á Norðurlandaráðsþingi þar sem Miðflokkurinn eigi ekki fulltrúa.

Forsætisnefnd Alþingis á fundi 17. mars 2025.Alþingi/Ljósmyndir Rutar og Silju

„Við ákváðum þetta bara með skömmum fyrirvara og náðum að hitta fjölmarga, þingmenn og hina og þessa og lærðum helling,“ segir Karl Gauti sem bætir því við að lokun alríkisins bandaríska hafi sett strik í reikninginn og þingflokkurinn ekki náð að hitta á eins marga og hann hefði kosið.

„En við náðum einhverjum fjórum eða fimm heimsóknum á þessum skamma tíma. Það var bæði fróðlegt og upplýsandi fyrir okkur. Þetta er sterkur, góður og samheldinn hópur.“

Þingmenn fengu í einhverjum tilfellum tækifæri til að kynnast fjölskyldumeðlimum félaga sinna í flokknum. Þannig fóru eiginkona og barn Snorra Mássonar með vestur um haf en parið upplýsti á samfélagsmiðlum að þau hefðu gengið 28 þúsund skref einn heimsóknardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×