Lífið

Gerðið verði besti staðurinn ná­lægt borginni til að skoða stjörnur

Lovísa Arnardóttir og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Gott verður að fylgjast með norðurljósum, stjörnuhröpum og stjörnunum sjálfum í stjörnugerðinu.
Gott verður að fylgjast með norðurljósum, stjörnuhröpum og stjörnunum sjálfum í stjörnugerðinu. Vísir/Vilhelm

Stjörnugerði var opnað í Heiðmörk í kvöld. Stjörnugerðið á að vera griðarstaður myrkurs og þar á að vera gott að staldra við og glápa á stjörnurnar. Sævar Helgi Bragason, Stjörnu-Sævar, kom að opnun gerðisins.

„Þetta er sett upp eins og skeifa og þetta er skjólveggur vegna þess að hér getur oft verið hvöss og nöpur norðanátt,“ segir Sævar og að þá verði auðveldara og betra að horfa til himins.

Hann segir að í gerðinu sé fólk komið frá mestu ljósmengun höfuðborgarsvæðisins og því sé þarna hægt að sjá vetrarbrautina, dauf stjörnuhröp og norðurljós.

„Þetta er eins gott og það verður fyrir stað sem er tiltölulega nálægt höfuðborginni,“ segir hann og að gerðið sé frábær staður til að sjá náttúruna sem birtist bara á næturnar.

Hann segir stjörnubjartar nætur fram undan og mælir með því að fólk fari í gerðið til að njóta þess. Nauðsynlegt sé að klæða sig vel.

Stjörnugerðið í Heiðmörk er verkefni sem hlaut brautargengi í kosningum lýðræðisverkefnisins Betri Garðabæjar. Stjörnugerðið er við Búrfellsgjá í Garðabæ.

Stjörnugerðið er staðsett við bílastæði við Heiðmerkurveg sem tengist útivistarstíg að Búrfelli og Búrfellsgjá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.