Enski boltinn

Engin stig dregin af Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að tapa stigum.
Þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að tapa stigum. EPA/DAVID CLIFF

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea mun ekki þurfa að óttast stigafrádrátt þrátt fyrir að enska knattspyrnusambandið hafi lagt fram 74 kærur á hendur félaginu.

Fyrr í dag var greint frá því að Chelsea hefði verið ákært fyrir 74 brot sem áttu sér stað þegar Roman Abramovich var eigandi félagsins. Þar kom einnig fram að núverandi eigendur Chelsea hefðu bent enska sambandinu á að maðkur væri í mysunni.

Einnig mun Chelsea hafa aðstoðað við rannsókn málsins til þessa og ætlar félagið að halda því áfram þangað til niðurstaða fæst.

Sky Sports hefur heimildir fyrir því að enginn stigafrádráttur muni eiga sér stað. Talið er að félagið muni þurfa borga sekt líkt og það gerði á dögunum þegar það náði sátt í máli sínu og Knattspyrnusambandi Evrópu.

Þar þurfti Chelsea að greiða 10 milljónir evra – tæplega einn og hálfan milljarð – í sekt. Sú sekt, og sektin sem félagið mun þurfa að greiða nú, koma ekki til með að hafa áhrif á hversu mikið félagið getur eytt í leikmenn.

Sky Sports greinir frá því að þau félagaskipti sem vöktu hvað mestar grunsemdir hafi verið kaup félagsins á Eden Hazard, Samuel Eto‘o og Willian.

Enska úrvalsdeildin hefur gefið Chelsea til 19. september til að svara ákærunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×