Lífið

„Sjúllaður“ sítrónu og jarðaberja næturgrautur

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Refreshing Overnight Oats with Yogurt and Strawberries in Glass Jars on Pink Tile Table
Getty

Sálfræðingurinn og þjálfarinn Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, deildi nýverið uppskrift á samfélagsmiðlum að ljúffengum næturgraut sem hún lýsir sem hreinum unaði fyrir bragðlaukana.

„Það verða örugglega samin ljóð um þennan unað. Hitabylgja herjar á Danaveldi og þá garga bragðlaukarnir á eitthvað svalt og kalt í munnholið. Og inn kemur þetta snarholla gómsæti eins og riddarinn á hvíta hrossinu með þessu dúndur kombói af sykurlausri sítrónusælu og jarðaberjum.

Hugurinn reikar á Amalfiströnd Ítalíu þar sem trjágreinar svigna undan spikfeitum djúsí sítrónum með hnausþykkan börk. Sítrónur og jarðaber knúsa nefnilega hvort annað eins og tvær ástfangnar pöndur,“ skrifar Ragga á kómískan hátt við færsluna á Facebook.

Uppskriftin er einföld og hentar vel sem hollur morgunverður eða millimál.

„Sjúllaður“ sítrónu og jarðaberja næturgrautur

Hráefni:

  • 50g haframjöl
  • 2 msk Chia fræ
  • 100 ml mjólk 
  • 2 msk skyr/jógúrt 
  • 2 msk sítrónusæla (Lemon Curd)
  • 5-7 dropar vanillu stevia
  • Nokkur niðursneidd fersk jarðaber

Aðferð:

  1. Hrærið saman haframjöli, sítrónusælu, chiafræjum, mjólk, jógúrti og vanilludropum.
  2. Setjið hafrablönduna í fallegt glas eða krukku.
  3. Skerið jarðarber í sneiðar og raðið þeim ofan í hliðarnar á glasinu og í blönduna.
  4. Bætið sítrónusælu og fleiri jarðaberjum ofan á blönduna.
  5. Geymið í ísskáp yfir nótt.
  6. Daginn eftir má bæta við fleiri jarðaberjum, súkkulaði eða öðru sem ykkur lystir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.