Innlent

Ógnaði veg­far­endum með stórum hníf

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tilkynning um málið barst lögreglu laust fyrir klukkan eitt. 
Tilkynning um málið barst lögreglu laust fyrir klukkan eitt.  Vísir/Vilhelm

Lögregla handtók mann í miðborginni í hádeginu sem hélt á stórum hníf og ógnaði öðrum vegfarendum. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.

Sjónarvottur sem tilkynnti atvikið til lögreglu segir frá því að hafa verið á gangi um Laugavegi þegar hann kom auga á tvo menn sem áttu í útistöðum. Á milli þeirra hafi staðið kona. Annar maðurinn hafi haldið á hníf sem sjónarvotturinn segir á stærð við eldhúshníf eða jafnvel sveðju. Vitnið hafi tilkynnt málið til lögreglu og látið sig hverfa. 

Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við fréttastofu að lögreglu hafi borist tilkynning um mann nærri Laugavegi með stóran hníf í hönd að ógna fólki í kring laust fyrir klukkan eitt.

Nokkrum mínútum síðar hafi viðkomandi verið handtekinn og vistaður í fangaklefa. Málið sé í rannsókn. Unnar segir manninn ekki hafa komið við sögu hjá lögreglu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×