Fótbolti

Hetja Þjóð­verja í gær hefur sigrast tvisvar á krabba­meini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ann-Katrin Berger fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hún hafði varið síðasta víti Frakka.
Ann-Katrin Berger fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hún hafði varið síðasta víti Frakka. Getty/Molly Darlington

Ann-Katrin Berger var lykilmanneskjan á bak við það að þýska kvennalandsliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í Sviss.

Þjóðverjar voru manni færri frá þrettándu mínútu og lentu líka 1-0 undir í leiknum. Þær náðu að jafna metin tíu á móti ellefu og héldu svo út allan leikinn og alla framlenginguna.

Þýska liðið sýndi þarna rosalegan baráttuhug allar sem ein og það er magnað að liðið hafi haldið út á móti þessu sterka franska liði í 107 mínútur manni færri.

Berger átti auðvitað frábæran leik í markinu og varði níu skot í leiknum. Hún varði einu sinni á ótrúlegan hátt í lokin þegar hún hoppaði aftur á bak og náði að skófla boltanum út rétt áður en hann fór yfir marklínuna. Markvarsla mótsins að mati flestra.

Berger varði síðan tvö víti frá Frökkum í vítakeppninni og skoraði úr einu víti sjálf. Hetjudáðir af hæstu gráðu.

Það vita kannski ekki allir en hin 34 ára gamla Berger hefur líka unnið harða baráttu utan vallar og það oftar en einu sinni.

Hún frétti það á miðju síðasta Evrópumóti, í Englandi 2022, að hún að skjaldkirtilskrabbameinið væri komið aftur. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Þá hafði hún verið laus við krabbameinið í fjögur ár en þurftu nú að fara í meðferð á nýjan leik.

„Ég er ekki mikil tilfinningavera,“ sagði Berger á blaðamannafundi eftir leik þegar hún var spurð út í baráttu sína við krabbameinið.

„Ég er bara stolt af því að vera hér. Það sem gerðist árið 2022 er bara hluti af fortíðinni. Ég horfi fram á veginn og til framtíðarinnar. Ég er að lifa mitt besta líf og ég er kominn í undanúrslitin með liði mínu,“ sagði Berger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×