Grýlukerti og snjóhengjur hafa safnast saman á þökum víða um höfuðborgarsvæðið eftir snjó og kulda síðustu daga. Mikilvægt er að fólk hafi varann á þegar það gengur við hús eða leggur bílum sínum, að sögn forvarnasérfræðings.
„Því að fólk getur slasað sig illa ef það fær nokkurra kílóa snjóhengju og klakabúnt yfir sig,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.
Húseigendur beri ábyrgð
Vegfarendur eru þó ekki þeir einu sem ættu að hafa hengjurnar í huga, og bera raunar síður ábyrgð á tjóni sem hlotist getur af. Það séu húseigendur sem beri ábyrgð á því að gera ráðstafanir til að forða tjóni.
„Annað hvort er að ná snjóhengjunum niður, sem er alls ekki alltaf hægt. Þar sem það er ekki hægt er að afmarka svæðið fyrir neðan þannig að enginn sé undir.“
Ekki algeng slys en árleg þó
Er þetta algengt, þessi mál þar sem fólk fær grýlukerti eða annað á sig?
„Nei, sem betur fer eru þetta nú ekki algeng slys og tjón. En þau verða því miður á hverju ári þannig að það er alveg þess vert að vekja athygli á þessu og hvetja fólk til að horfa svolítið upp fyrir sig.“
Veðurspá næstu daga bendi til þess að snjóhengjurnar fari senn að falla í auknum mæli.
„Það er að fara að hlýna og hvessa. Strax á morgun byrjar að hlýna og enn meira á föstudag. Ég tala nú ekki um helgina, þegar það verður bara mígandi rigning og hávaðarok.“