Á heimasíðu Veitna má fylgjast með framgangi tengingar nýrrar flutningsæðar, Suðuræðar 2, í hitaveitu höfuðborgarsvæðisins.
„Almannadalur og Hólmsheiði ættu að vera komin með fullan þrýsting á heita vatnið hjá sér. Önnur vinna er samkvæmt áætlun og verður uppfært hér eftir því sem fram vindur,“ segir í uppfærðri færslu á vef Veitna.
Að sögn Silju Ingólfsdóttur hjá Veitum miðar vinnunni vel og að þessa stundina sé verið að sjóða saman tengingarnar. Veitur standa við tímaáætlunina sem gefin var út í aðdraganda lokananna og segist Silja munu uppfæra síðuna um níuleytið í kvöld með nýjustu fréttum af gangi mála.
Starfsfólk Veitna sé ánægt með árangurinn og jafnframt stálheppið með veðrið sem leikur við höfuðborgarbúa um þessar mundir.