Fótbolti

Bitlausum Brössum mis­tókst að skora

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vinícius Júnior komst lítt áleiðis í leiknum gegn Kosta Ríka, ekki frekar en aðrir leikmenn Brasilíu.
Vinícius Júnior komst lítt áleiðis í leiknum gegn Kosta Ríka, ekki frekar en aðrir leikmenn Brasilíu. getty/Ronald Martinez

Brasilía gerði markalaust jafntefli við Kosta Ríka í fyrsta leik sínum í D-riðli Suður-Ameríkukeppninnar í nótt. Brassar þóttu bitlausir í leiknum í Inglewood í Kaliforníu.

Brasilíska liðinu hefur gengið illa undanfarna mánuði og í byrjun árs var Fernando Diniz rekinn sem þjálfari þess. Við tók Dorival Júnior.

Hann stýrir Brössum í Suður-Ameríkukeppninni í Bandaríkjunum en ekki er hægt að segja að strákarnir hans hafi farið vel af stað í henni.

Brasilía var miklu meira með boltann í leiknum gegn Kosta Ríka en leikmönnum liðsins voru mislagðir fætur upp við mark andstæðingsins. Marquinhos skoraði reyndar fyrir Brassa eftir hálftíma en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Lucas Paqueta komst næst því að skora fyrir Brasilíu eftir þetta þegar hann skaut í stöng á 63. mínútu. Allt kom þó fyrir ekki og Brassar urðu að sætta sig við eitt stig úr leiknum.

Í hinum leik D-riðils sigraði Kólumbía Paragvæ með tveimur mörkum gegn einu í Houston.

James Rodríguez sýndi gamla takta og lagði upp bæði mörk kólumbíska liðsins, fyrir Daniel Munoz og Jefferson Lerma. Julio Enciso skoraði mark Paragvæa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×