Innlent

Ellefu aðildar­fé­lög BSRB skrifa undir kjara­samninga

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skrifað var undir seint í nótt.
Skrifað var undir seint í nótt. Vísir/Samsett

Ellefu aðildarfélög BSRB undirrituðu á öðrum tímanum í nótt nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samið var á sambærilegum nótum og á almennum markaði í vor.

Þau ellefu félög sem samningurinn nær til eru Kjölur - stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi, FOSS - stéttarfélag í almannaþjónustu, Sameyki - stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Suðurnesja og Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar.

Nýir kjarasamningar verða kynntir félagsfólki viðkomandi aðildarfélaga BSRB á næstu dögum.

„Nú þegar fyrstu kjarasamningar á opinberum markaði hafa verið undirritaðir standa vonir til að lokið verði við gerð fleiri samninga á næstu dögum. Kjarasamningar hjá meginþorra félagsfólks aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá 1. apríl 2024,“ segir í tilkynningu frá BSRB.

Í gær skrifaði saminganefnd Sameykis undir samninga við ríkið sem voru þeir fyrstu sem gerðir voru á opinberum markaði í þessari kjaralotu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×