Innlent

Hraun­tungan mallar lötur­hægt á­fram

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Hraun úr eldgosinu sem hófst 29. maí hefur runnið að varnargörnum sem umlykja Grindavík og yfir vegi.
Hraun úr eldgosinu sem hófst 29. maí hefur runnið að varnargörnum sem umlykja Grindavík og yfir vegi. Vísir/Vilhelm

Virki í gígnum sem enn er er virkur í  eldgosinu við Sundhnúksgíga er svipuð og undanfarna daga. Hrauntungan sem rann yfir Grindavíkurveg í gærmorgun hreyfist löturhægt eins og er, en viðbragsaðilar eru viðbúnir því að annað áhlaup gæti hafist á ný.

Hraunstreymið úr gígnum er að mestu í norðvestur en enn kemur svolítið upp sunnan við gíginn. Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni. Hún segir að hrauntungan sem fór yfir veginn í gær hafi mjög lítið hreyfst síðan seinnipartinn í gær en á vefmyndavélum sjáist örlítil hreyfing.

Framendi hraunbreiðunnar er í nokkur hundruð metra hundruð metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist hægt í áttina að þeim.

Fréttamaður Stöðvar 2 var í beinni útsendingu í kvöldfréttum í gærkvöldi og lýsti því sem fyrir augu bar auk þess að ræða við viðbragðsaðila.

Annað áhlaup ekki útilokað

Að sögn Minneyjar er ekki útilokað að annað áhlaup eigi sér stað en ómögulegt sé að segja til um hvort og þá hvenær það yrði. Hraun virðist safnast á sama stað og viðbragðsaðilar séu viðbúnir því að svipuð atburðarrás og átti sér stað í gær geti hafist á næstu klukkustundum eða dögum.

Veðurstofan heldur stöðufund með viðbragðsaðilum með morgninum og eftir hann ættu mögulega frekari upplýsingar að liggja fyrir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×