Fótbolti

Á­horf­endur slógust úti á velli og stól kastað í sjón­varps­menn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Garðsstól var kastað í átt að sjónvarpsmönnum.
Garðsstól var kastað í átt að sjónvarpsmönnum.

Stuðningsmenn Sparta Prag og Viktoria Plzen slógust inni á vellinum eftir leik liðanna í úrslitum tékknesku bikarkeppninnar í fótbolta.

Sparta Prag vann leikinn í gær, 2-1, en það sem gerðist eftir leikinn setti ljótan blett á kvöldið.

Eftir lokaflautið réðust áhorfendur, sem voru sumir grímuklæddir, inn á Doosan völlinn í Plzen og byrjuðu að slást. Tveir stuðningsmenn Plzen sáust meðal annars lemja stuðningsmann Sparta Prag sem lá í grasinu.

Ólátabelgirnir köstuðu líka garðstól í sjónvarpsmenn eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

Mikil öryggisgæsla var á leiknum en hún dugði skammt þegar út í alvöruna var komið. Stöðva þurfti leikinn nokkrum sinnum vegna óláta stuðningsmanna og eftir lokaflautið varð fjandinn laus.

Loks náðist að afhenda bikarinn tíu mínútum eftir að dómarinn Ondrej Berka flautaði til leiksloka. Þetta er í fyrsta sinn í áratug sem Sparta Prag vinnur tvöfalt heima fyrir en liðið er búið að tryggja sér meistaratitilinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×