Innlent

Tveir hand­teknir í tveimur að­skildum málum vegna of­beldis í heima­húsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast á vaktinni í gærkvöldi og nótt.
Lögregla hafði í nógu að snúast á vaktinni í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Tveir voru handteknir í tveimur aðskildum málum í gærkvöldi eða nótt vegna ofbeldis í heimahúsi. Annar einstaklingurinn reyndist mjög ölvaður en hinn reyndi að slá til lögreglumanns.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni næturinnar.

Lögreglu barst einnig tilkynning um innbrot og var grunaður handtekinn skammt frá vettvangi. Öryggisverðir höfðu fylgst með honum en hann virtist mjög ölvaður og var að reyna að komast inn í bifreiðar.

Þegar betur var að gáð reyndist um að ræða mann sem lögregla hafði haft afskipti af fyrr um nóttina sökum ölvunar en þegar komið var í fangageymslur varð hann mjög ósáttur, hótaði lögreglumanni og reyndi að sparka í annan.

Lögreglu barst einnig tilkynning um þjófnað úr verslun þar sem þrír voru að verki og þá var einn handtekinn í borginni grunaður um sölu fíkniefna. Sá var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Í yfirliti lögreglu segir einnig frá því að tilkynning hafi borist í gær um tvo einstaklinga á skemmtistað en annar þeirra virtist vera með skotvopn í buxunum. Mennirnir voru handteknir af vopnuðum lögreglumönnum og sérsveit skömmu síðar, þar sem þeir voru komnir í bifreið.

Í ljós kom að um eftirlíkingu var að ræða, ekki eiginlegt skotvopn.

Viðkomandi voru með fíkniefni á sér og er annar þeirra grunaður um akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×