Erlent

Búist við að Noregur viður­kenni Palestínu sem sjálf­stætt ríki

Atli Ísleifsson skrifar
Jonas Gahr Støre hefur gegnt embætti forsætisráðherra Noregs frá árinu 2021.
Jonas Gahr Støre hefur gegnt embætti forsætisráðherra Noregs frá árinu 2021. EPA

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og utanríkisráðherrann Espen Barth Eide hafa boðað til blaðamannafundar í dag þar sem búist er við að þeir muni tilkynna að Noregur komi til með að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki.

Norskir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun en í fundarboði segir að fundurinn muni fjalla um málefni Miðausturlanda. Einnig er búist við að Írland og Spánn komi til með að boða slíkt hið sama síðar í dag að því er fram kemur í frétt Reuters.

Stjórnvöld á Möltu og Slóveníu hafa einnig gefið í skyn að þau muni viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu.

Stjórnvöld í Ísrael hafa lengi verið gagnrýnin á að Palestína sé viðurkennt sem sjálfstætt ríki. „Að viðurkenna palestínskt ríki mun leiða til aukinna hryðjuverka, óstöðugleika í heimshlutanum og setja allar áætlanir um frið í hættu,“ sagði í færslu ísraelska utanríkisráðuneytisins á samfélagsmiðlinum X í gær.

Ísland viðurkenndi sjálfstætt ríki Palestínu árið 2011 þar sem Palestína er viðurkennt sem fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. 

Í heildina hafa 143 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki.

Uppfært: 7:00: Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og utanríkisráðherrann Espen Barth Eide tilkynntu á fréttamannafundi sínum að Noregur viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt ríki. Støre sagði þetta nauðsynlegt skref til að hægt sé að skapa frið í heimshlutanum.


Tengdar fréttir

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sé vanhæft til að takast á við aðstæðurnar

Prófessor í stjórnmálafræði segir það stórfréttir að alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hafi farið fram á handtökuskipun á hendur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. Stærstu fréttirnar séu þó þær að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi reynst algjörlega vanhæft til að takast á við aðstæðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×