Innlent

Sauð­burður hafinn á Stokks­eyri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jón Sindri í Vestri Grund við Stokkseyri með fallegt lamb en nokkur lömb hafa komið í heiminn á bænum undanfarið.
Jón Sindri í Vestri Grund við Stokkseyri með fallegt lamb en nokkur lömb hafa komið í heiminn á bænum undanfarið. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eitt og eitt lamb er farið að koma í heiminn hjá sauðfjárbændum þó sauðburður hefjist ekki á fullum krafti fyrir en í maí hjá flestum. Á sauðfjárbúi við Stokkseyri eru nokkur nýfædd lömb.

Hér erum við að tala um sauðfjárbúið hjá þeim Jóni Sindra og Andreu í Vestri Grund 1 við Stokkseyri í Sveitarfélaginu Árborg. Þau eiga von á um 450 lömbum í vor en fyrstu lömbin eru þó komin í heiminn.

„Já, það er eitthvað smá af lausaleiks króum, eitthvað smá fyrirmáls en sauðburður á annars ekki að byrja fyrr en eftir tvær vikur. Þetta er besti tími ársins, það er bara þannig,” segir Jón Sindri.

Jón Sindri segist binda miklar vonir við ARR í tengslum við sæðingar en búið hjá þeim Andreu er í fyrsta skipti núna að taka þátt í sæðingum. Með ARR á Jón Sindri við verndandi gen gegn riðuveiki.

En það er alltaf gaman að sjá hvað nýfædd lömb eru fljót að komast á spena hjá mæðrum sínum á meðan stærri lömbin líta á það sem sjálfsagðan hlut mörgum sinnum á dag.

Jón Sindri og Andrea eiga von á því að ærnar þeirra beri um 450 lömbum í vor.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En að vera sauðfjárbóndi í dag, er það skemmtilegt?

„Já, já, við verðum að segja að það sé bjart fram undan og að það sé allt upp á við. Afurðaverð fer allavega hækkandi og svo þetta ARR dæmi, þetta sé bara í góðum málum núna,” segir Jón Sindri.

Jón Sindri segir að sauðburður á vorin sé skemmtilegasti tíminn í sveitinni þó dagarnir geti orðið mjög langir.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×