Fótbolti

Skýrsla eftir tap í Aachen: Svei þér Hendrich!

Aron Guðmundsson skrifar
Diljá Ýr Zomers í baráttunni fyrir íslenska liðið í leik kvöldsins
Diljá Ýr Zomers í baráttunni fyrir íslenska liðið í leik kvöldsins Vísir/Getty

Ís­lenska kvennalands­liðið í fót­bolta mátti sætta sig við 3-1 tap gegn Þýska­landi á úti­velli í undan­keppni EM 2025 í kvöld. Að­stæðurnar í Aachen í kvöld voru á þann veg að maður taldi góðar líkur á góðum úr­slitum fyrir Ís­land. Veður­fars­lega voru að­stæður frá­bærar og inn á leik­vanginum var stemningin meðal þýskra á­horf­enda á þá leið að hún getur ekki hafa valdið sviðs­skrekk hjá okkar konum.

Samt sem áður, þrátt fyrir allt þetta, byrjað leikurinn á versta veg fyrir okkar konur. Lea Schuller, liðs­fé­lagi Gló­dísar Perlu hjá Bayern Munchen var ein á auðum sjó innan víta­teigs Ís­lands og var boðið upp á frítt færi til þess að koma Þýska­landi yfir. Hún þakkaði pent fyrir það færi og gerði akkúrat það.

At­burða­rás þvert á það sem maður hafði heyrt frá ís­lensku leik­mönnunum í að­draganda leiksins um það sem ætti að gerast. Var allt að fara stefna á versta veg?

Í staðinn fyrir að láta þessar miður góðu vendingar slá sig út af laginu, spyrntu stelpurnar okkar sér frá botninum. Ógnin sem felst í löngu inn­köstum Svein­dísar Jane. Sú ógn er raun­veru­leg dömur mínar og herrar. Það í bland við styrk Gló­dísar Perlu innan teigs til þess að fleyta boltanum á­fram lengra inn á hættu­svæði.

Eitt­hvað var að lokum undan að láta. Ís­lenska liðið fékk tvö dauða­færi til þess að jafna leikinn. Fyrst Ingi­björg Sigurðar svo Hildur Antons en inn vildi boltinn ekki. Er þetta einn af þessum dögum þar sem ekkert gengur upp?

Nei sagði Hlín Ei­ríks­dóttir sem var eina breytingin á liði Ís­lands milli leikja hjá Þor­steini lands­liðs­þjálfara. Hlín hafði verið ógnandi eftir mark Þýska­lands og á­ræðni hennar skilaði sér í jöfnunar­marki Ís­lands. Loksins!

Skömmu eftir ís­lenska markið urðum við þó fyrir á­falli. Kat­hrin Hendrich, liðs­fé­lagi Svein­dísar Jane, fór í glóru­lausa tæk­lingu. Viljandi tæk­lingu því Sveindís var á leið í afar ákjósanlega stöðu einn á einn! 

Svein­dís féll við og út­litið var strax slæmt. Hún hélt um öxl sína, gerði til­raun til þess að halda leik á­fram en sárs­aukinn var það mikill að hún þurfti að víkja af velli og fór beinustu leið upp á sjúkra­hús í mynda­töku. Svei þér Hendrich. Maður myndi vilja vera fluga á vegg þegar hún snýr aftur til síns fé­lags­liðs.

For­ráða­menn Wolfs­burg væntan­lega ekki á­nægðir með fram­göngu Hendrich og mætti líkja þessu við að kýla sjálfan sig af fullum þunga í and­litið.

Þjóð­verjarnir gengu á lagið eftir brott­hvarf Svein­dísar því skiljan­lega hafði það sín á­hrif á leik­skipu­lag og sóknar­upp­legg Ís­lands. Þýska liðið kom sér aftur yfir. Aftur var það Lea Schuller sem skoraði. Sóknar­þungi Þjóð­verja var gífur­legur og á versta mögu­lega tímanum, nokkrum sekúndum fyrir lok fyrri hálf­leiks, bætti Lena Oberdorf við þriðja marki liðsins.

Úr því sem komið var náði ís­lenska liðið að halda sjó í seinni hálf­leik án þess að skaðinn yrði meiri. Loka­tölur 3-1 sigur Þjóð­verja sem tylla sér á topp riðilsins. Fyrsti lands­leikja­glugginn í undan­keppninni endar með einum sigri og einu tapi fyrir Ís­land og er liðið með jafn­mörg stig og Austur­ríki í öðru og þriðja sæti.

Fram­undan, í næsta verk­efni, eru tveir leikir gegn Austur­ríki. Leikir sem ó­hætt er að kalla úr­slita­leiki því fjögur til sex stig úr þeim leikjum gætu gert gæfu­muninn og jafn­vel tryggt EM sæti.

Heilt yfir má finna marga já­kvæða punkta í leik Ís­lands í ný­af­stöðnu verk­efni. Nú er að þjappa sér saman og koma af krafti inn í næstu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×