Erlent

Ung­lingur lést eftir á­rás við skóla í Frakk­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði að skólar þyrftu að vera griðarstaður eftir tvær alvarlegar líkamsárásir á börn fyrir utan skóla í landinu í vikunni.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði að skólar þyrftu að vera griðarstaður eftir tvær alvarlegar líkamsárásir á börn fyrir utan skóla í landinu í vikunni. Vísir/EPA

Fimmtán ára gamall piltur lést á sjúkrahúsi í dag tæpum sólarhring eftir að hópur ungmenna réðst á hann og barði við skólann hans í úthverfi Parísar í gær. Vaxandi ofbeldisalda á meðal ungmenna veldur áhyggjum í Frakklandi.

Vitni segja að árasarmennirnir hafi kýlt og sparkað í piltinn, sem hefur verið nefndur Shamseddin í fjölmiðlum. Þeir voru með lambúshettur. Jean-Marie Vilain, borgarstjóri í Viry-Chatillon þar sem árásin var gerð, segir að pilturinn hafi verið á leið úr tónlistartíma þegar ráðist var á hann nærri skólanum um klukkan 16:30 að staðartíma í gær. Læknum tókst ekki að bjarga lífi piltsins.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir saksóknara að sautján ára unglingur hafi verið handtekinn vegna dauða Shamseddins og að lögreglan leiti fleiri árásarmanna.

Árásin kemur aðeins nokkrum dögum eftir að fjórtán ára gömul stúlka að nafni Samara varð fyrir árás þriggja jafnaldra sinna fyrir utan skóla í borginni Montpellier í Suður-Frakklandi. Læknar héldu henni í dái í fyrstu en hún hefur síðan náð meðvitund. Tveir piltar og ein stúlka var handtekin vegna árásarinnar og hafa þau játað aðild að henni.

Móðir Samöru sagði fjölmiðlum að önnur stúlka hefði lagt dóttur sína í einelti vegna þess að hún neitaði að klæða sig eftir íslömskum reglum. Saksóknari í málinum sagði árásina hins vegar tengjast myndum sem var deilt á samfélagsmiðlinum Snapchat. Síðar sakaði móðirin hægriöfgamenn um að reyna að notfæra sér árásina í pólitískum tilgangi.

Breska blaðið The Guardian segir að tugir hótana um ofbeldisverk hafi verið sendar skólum í Frakklandi undanfarna daga.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í dag að skólar landsins yrðu að njóta verndar fyrir „gegndarlausu ofbeldi“ á meðal unglinga. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×