Fótbolti

Rangers og Celtic leyfa stuðnings­menn hvors annars á ný

Siggeir Ævarsson skrifar
Skoskir stuðningsmenn kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að skrílslátum. Þessi mynd var tekin á leik Rangers og Dortmund og eins og sjá má var stíf öryggisgæsla á Ibrox vellinum.
Skoskir stuðningsmenn kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að skrílslátum. Þessi mynd var tekin á leik Rangers og Dortmund og eins og sjá má var stíf öryggisgæsla á Ibrox vellinum. Vísir/EPA-EFE/ROBERT PERRY

Skosku erkifjendurnir frá Glasgow, Rangers og Celtic, hafa komist að samkomulagi um að úthluta á ný miðum til hvors annars þegar liðin mætast.

Forsaga málsins nær aftur til ársins 2018 þegar forsvarsmenn Rangers tilkynntu að stuðningsmenn Celtics myndu aðeins fá 700 miða á leiki á Ibrox vellinum en þeir höfðu alla jafna fengið 7.500 miða, bæði á Ibrox og Celtics park. 

Forsvarsmenn Celtic svöruðu í sömu mynt og í maí 2023 tilkynnti liðið að engir miðar yrðu í boði fyrir Rangers aðdáendur og Rangers tóku samskonar ákvörðun strax í kjölfarið. Síðan þá hafa nágrannaslagirnir aðeins farið fram fyrir framan aðdáendur heimaliðsins hverju sinni.

Nú hafa félögin hoggið á hnútinn og ætla að úthluta um 5% miða til andstæðinganna á ný, eða 2.500 miðum á Ibrox og 3.000 á Celtic Park.

Samkomulagið tekur þó ekki gildi fyrr en á næsta tímabili, sem þýðir að liðin munu mætast tvisvar sinnum enn á þessum tímabili með einsleitan aðdáendahóp í stúkunum. Liðin hafa haft mikla yfirburði í deildinni í ár, eins og oft áður, og er Celtic í efsta sæti með 71 stig og Rangers í 2. sæti með 70 og á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×