Innlent

„Fólk deyr bara á bið­listum“

Vésteinn Örn Pétursson og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Jón K. Jacobsen er varaformaður Samtaka aðstandenda og fíknisjúkra.
Jón K. Jacobsen er varaformaður Samtaka aðstandenda og fíknisjúkra. Vísir/Sigurjón

Efnt var til minningarstundar í dómkirkjunni síðdegis í dag um þau sem látist hafa úr fíknisjúkdómi. Varaformaður Samtaka aðstandenda og fíknisjúkra segir fólk deyja á biðlistum meðan stjórnvöld setji ekki fjármagn í málaflokkinn og marki sér ekki.

„Helstu baráttumálin eru náttúrulega að vekja ráðamenn til lífsins í sambandi við fíknisjúkdóminn. Það þarf að fara að taka heildræna stefnu og setja fjármagn í þetta. Fólk deyr bara á biðlistum og það er verið að keyra meðferðarstöðvar á hálfri getu út af peningaskorti,“ segir Jón K. Jacobsen, varaformaður samtakanna. 

Jón þekkir baráttu við fíknisjúkdóminn sjálfur, og barnsmóðir hans lést úr fíknisjúkdómi. 

„Ég hef verið að vinna á meðferðarstöðvum, verið í AA starfi inni í fangelsunum og verið að vinna með Rauða krossinum,“ segir Jón. Það sama gildi þar.

„Það er lítill peningur inni í fangelsunum í betrun og það er í raun og veru ekkert sem tekur við, hvort sem þú ert að koma úr meðferð eða koma út úr fangelsi. Það vantar bara heildræna stefnu til að grípa fólkið sem er að deyja.“

Ráðstafnir gerðar þegar hamfarir ríði yfir

Fólk sem sótti minningarathöfnina gat skilið eftir skilaboð til þingmanna í þar til gerðum kassa. Jón segir helstu skilaboðin vera þau að það þýði ekki að keyra kerfin áfram fjársvelt.

„Ég heyrði nú í Willum heilbrigðisráðherra, hef mætt honum og Ásmundi barnamálaráðherra. Ef það á að fara að stofna eitthvað í sambandi við hamfarir, ég veit nú ekki að fólk hafi dáið af hamförum á Íslandi, hvort sem það er eldgos eða hvað, en það eru 100 manns að deyja á hverju ári.“

Jón segir ýmsar ráðstafanir vera gerðar í málaflokkum þegar fólk deyi, til að mynda hvað varðar umferðaröryggi.

„Þá var tekið á þeim málum heildrænt. En það virðist ekki ætla að vera í þessum fíkniefnamálum. Fíknisjúkdómurinn er að taka ungu kynslóðina og líka eldri kynslóðina, því miður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×