Innlent

Lög­reglan lýsir eftir þjófunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn lögreglunnar telja líklegt að einhver geti borið kennsl á mennina þó andlit þeirra sjáist ekki að fullu á myndinni.
Forsvarsmenn lögreglunnar telja líklegt að einhver geti borið kennsl á mennina þó andlit þeirra sjáist ekki að fullu á myndinni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst eftir tveimur mönnum. Þeir eru grunaðir um að hafa rænt tuttugu til þrjátíu milljónum úr peningaflutningabíl í Hamraborg í Kópavogi í gærmorgun.

Mynd sem lögreglan hefur sent á fjölmiðla sýnir mennina í bíl af gerðinni Toyota Yaris, en bílsins hefur verið leitað frá því í gær. Andlit mannanna sjást ekki að fullu en forsvarsmenn lögreglunnar telja að einhver ætti þrátt fyrir það að geta þekkt þá. Þjóðerni mannanna liggur ekki fyrir.

Ef einhver þekkja til mannanna, eða vita hvar þá er að finna, eru hin sömu vinsamlegast beðin um að hringja í lögregluna í síma 112, en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.

Mennirnir eru grunaðir um að hafa rænt milljónum í áðurnefndu ráni í gær en þjófnaðurinn er sagður hafa verið þaulskipulagður og tók hann afar skamma stund.

Sjá einnig: Fundu rangan bíl með rétt skráningar­númer

Samkvæmt heimildum fréttastofu bökkuðu þjófarnir á Yarisnum á talsverðum hraða upp að bíl Öryggismiðstöðvarinnar og snarhemluðu. Síðan virðast þeir hafa brotist inn í bílinn í gegnum afturhurð með því að brjóta afturrúðu hans og tóku úr honum tvær töskur sem fullar voru af peningum, og komu sér af vettvangi.

Sjá einnig: Þaul­skipu­lögð að­gerð sem tók ör­fáar sekúndur

Töskurnar sem mennirnir höfðu á brott fundust í Mosfellsbæ í gærkvöldi og í dag. Þær eru sjö talsins en fimm þeirra voru tómar þegar þeim var rænt. Þegar lögreglan fann töskurnar voru peningarnar horfnir.

Bíllinn var á vegum Öryggismiðstöðvarinnar, en í tilkynningu frá fyrirtækinu kom fram að sérstakar litasprengjur væru í töskunum sem ættu að springa og eyðileggja verðmæti reyndi utanaðkomandi að komast í töskurnar.

Ekki liggur fyrir hvort sprengjurnar voru virkar í töskunum tveimur sem innihéldu peningana.


Tengdar fréttir

Litasprengjur sem eyðileggja verðmæti í töskunum sem var stolið

Öryggismiðstöðin segir að fjármunum sem var stolið úr bíl fyrirtækisins úr Hamraborginni í Kópavogi í gærmorgun hafi verið í sérhæfðum læstum verðmætatöskum. Töskurnar eru búnar litasprengjum sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til þess að nálgast þau.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×