Innlent

Börnin ný­búin að taka bruna­æfingu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vel gekk að rýma skólann, en leikskólabörnin sem voru í húsinu voru nýbúin að taka þátt í brunaæfingu.
Vel gekk að rýma skólann, en leikskólabörnin sem voru í húsinu voru nýbúin að taka þátt í brunaæfingu. Vísir/Einar

Engin grunnskólabörn voru í Húsaskóla í Grafarvogi í dag, þar sem eldur kom upp síðdegis í dag. Um 40 leikskólabörn á leikskólanum Fífuborg og 20 börn á frístundaheimilinu Kastala voru í húsinu. Aðstoðarskólastjóri segir börnin hafa vitað upp á hár hvernig bregðast ætti við, vegna brunaæfingar sem haldin var á dögunum.

„Það er ekki langt síðan við vorum með sameiginlega brunaæfingu, þannig þau vissu alveg hvað þau ættu að gera og það var rýmt bara um leið og vitað var að þetta væri að ske. Þau urðu í raun ekki vör við neitt,“ segir Jóna Rut Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri Húsaskóla, og vísar þar til um 40 til 50 leikskólabarna á Fífuborg sem voru í húsinu, auk 20 barna á frístundaheimilinu Kastala.

Rýmingin hafi gengið vel fyrir sig og allir safnast saman í anddyri Grafarvogslaugar, beint á móti skólanum.

Engir nemendur Húsaskóla voru í húsinu, þar sem þeir eru komnir í páskafrí.

Leikskólahald á morgun eða hinn

Eldurinn kom upp í þaki hússins, og því enginn bruni inni í húsnæðinu sjálfu. Jóna Rut að hægt verði að hefja skólahald með eðlilegum hætti eftir páska. 

„Þau hjá borginni eru að meta það hvort það verði á morgun eða hinn sem leikskólahald getur haldið áfram. Það er bara verið að reykræsta. Þetta fór betur en á horfðist.“


Tengdar fréttir

Búið að slökkva eldinn í Húsaskóla

Búið er að slökkva eld sem kviknaði í þaki Húsaskóla í Grafarvogi í dag. Skólinn hefur verið tæmdur og öllum börnum komið í skjól í nálægu íþróttahúsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×