Fótbolti

Rekinn vegna sam­bands við leik­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt Lampson þegar hann var leikmaður Los Angeles Galaxy í MLS-deildinni.
Matt Lampson þegar hann var leikmaður Los Angeles Galaxy í MLS-deildinni. Getty/Rich von Biberstein

Matt Lampson, markmannsþjálfari bandaríska kvennafótboltaliðsins Houston Dash, hefur verið rekinn úr starfi.

Eftir innanhússrannsókn kom í ljós að Lampson hafi verið í sambandi með leikmanni liðsins og þar með brotið starfsreglur félagsins.

Lampson má heldur ekki starfa í NWSL-deildinni út 2024 tímabilið en það kemur til vegna brota sinna en einnig vegna þess að hann sýndi ekki fulla samvinnuþýði við rannsóknina.

Lampson hafði verið sendur í leyfi á meðan sjálfstæð rannsókn fór fram en hún komst að því að þjálfarinn hafi í raun verið í tygjum við leikmann. ESPN segir að Lampson hafi verið sendur í leyfi í janúar en var síðan rekinn á mánudaginn.

NWSL deildin hefur hart á þessum málum eftir að rannsóknir sýndu fram á áralanga misnotkun leikmanna í deildinni.

Paul Riley, sem þjálfaði mörg lið í deildinni, var rekinn árið 2021 eftir að fyrrum leikmenn hans höfðu sakað hann um kynferðisáreiti og valdníðslu.

Fleiri slíkar ásakanir á hendur öðrum þjálfurum, allt frá kynferðisáreiti til misbeiting valds, varð á endanum til þess að Riley og þrír aðrir þjálfarar voru settir í lífstíðarbann frá deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×